Eru skólastjórar með horn og hala?
Helga Dögg Sverrisdóttir kennari við Síðuskóla ritar grein í Vikudag 9. apríl s.l. undir yfirskriftinni Eru skólastjórar upp til hópa ósveigjanlegir? Tilefnið er ný samþykktur vinnumatshluti kjarasamnings Félags grunnskólakennara og sá hluti hans sem kveður á um að kennarar eigi að vinna sína vinnu á vinnustað ellegar semja um annað við skólastjóra. Ekki er hægt að draga aðra ályktun af grein Helgu en að henni mislíki þetta ákvæði samningsins og jafnframt lýsir hún áhyggjum sínum af starfsháttum skólastjóra við innleiðingu samningsins.
Hér er reyndar um grundvallarbreytingu að ræða á kjarasamningi grunnskólakennara og skiljanlegt að það muni taka tíma að laga vinnutilhögun að breyttum forsendum. Hingað til hafa kennarar ráðið sínum vinnutíma utan kennslu að hluta til sjálfir en með nýjum kjarasamningi þarf sérstakt samkomulag milli skólastjóra og kennara ef kennari óskar eftir að haga starfi sínu með öðrum hætti en að vinna umsaminn vinnutíma á vinnustað. Það er við skólastjórann að semja þar sem kennarar vinna undir hans stjórn. Aðrar starfstéttir þurfa að semja við sína yfirmenn um tilhögun vinnutíma og því bregður þetta verklag ekki frá því sem eðlilegt telst á vinnumarkaði.
En um hvað snýst gagnrýnin í grein Helgu? Orðalag fyrirsagnarinnar gefur til kynna að ósveigjanleiki einkenni starfshætti skólastjóra en hins vegar er engan rökstuðning að finna í greininni sem byggir undir slíka alhæfingu. Önnur alhæfing birtist í lok greinarinnar þar sem segir að eftir eigi að koma í ljós hvort skólastjórnendur hafi bæði horn og hala þegar kemur að útfærslu vinnumatskafla kjarasamnings. Jafnframt ber Helga aðra fyrir sig þegar hún nefnir að margir haldi í þá von að skólastjórnendur láti ekki ægivald bæjarstjórnar (Akureyrar) kúga sig.
Óskandi er að Helga tali einungis fyrir munn þess fámenna hóps sem tjáir sig á samfélagsmiðlum um starfshætti skólastjóra, líkt og hún nefnir sjálf. Að setja heila starfsstétt undir einn og sama nornahattinn er í besta falli vanþekking á starfsháttum skólastjóra. Skólastjórum er vandi á höndum við innleiðingu á nýjum ákvæðum kjarasamnings og það mun taka tíma að laga þau að breyttu vinnufyrirkomulagi. Það þýðir samt ekki að þeir séu ósveigjanlegir eða með horn eða hala. Í samvinnu við þann góða og mikilvæga hóp sem grunnskólakennarar eru þarf verkið að vinnast. Markmiðið er að að tryggja eðlilegar framfarir allra nemenda í námi og að þeir fái búið við öryggi og frjóar námsaðstæður. Útfærsla nýs kjarasamnings grunnskólakennara ætti að mótast af þessu markmiði og því hvernig hver skóli ætlar að vinna með börnum og foreldrum til að þau markmið náist.
Vinnuveitendum ber hreint og beint að fylgja kjarasamningi og vinnuveitandi Helgu þ.e. Akureyrarbær vill, eðli málsins samkvæmt uppfylla þær skyldur. Þannig er það gagnvart öllum kjarasamningum, annað væri óeðlilegt. Skólastjórar fara með stjórnvaldsumboð sveitarstjórnar og því er þeirra að axla bæði ábyrgð og skyldur sem starfinu fylgja og taka ákvarðanir á þeim grunni. Í einhverjum tilvikum gætu stjórnendur þurft ð vera ósveigjanlegir að mati kennara þar sem kjarasamningur kveður á um annað en kennarar óska eftir. Hjá því verður ekki komist. Í ljósi fyrri vinnutímaákvæða kjarasamnings grunnskólakennara þá er hér um grundvallarbreytingu að ræða og því þurfa málsaðilar að sætta sig við að hafa bæði skrifað undir og samþykkt kjarasamninginn. Gegn því hækkuðu laun umtalsvert.
Að þessu sögðu eiga fullyrðingar Helgu ekki við rök að styðjast þar sem ekkert kemur fram í hennar máli um starfshætti skólastjórnenda sem styður það. Skólastjórar eru einfaldlega að vinna vinnuna sína á tímum grundvallarbreytinga. Með nýjum vinutímaákvæðum er leitast við að aðlaga starfshætti að breyttum áherslum í skólastarfi, nokkuð sem margt skólafólk hefur beðið eftir. Það mun að lokum koma öllum nemendum til góða.
-Karl Frímannsson, fyrrverandi skólastjóri og núverandi sveitarstjóri Eyjafjarðarsveitar