01. nóvember, 2007 - 14:52
Fréttir
Fimm nýir starfsmenn hafa nýlega verið ráðnir til Saga Capital Fjárfestingarbanka og starfa þeir allir í höfuðstöðvunum á Akureyri. Í upphafi var gert ráð fyrir að um 15 mannas störfuðu hjá bankanum en starfsfólki hefur fjölgað jafnt og þétt síðustu mánuði. Alls eru starfsmenn bankans nú orðnir 33 og starfa 24 á Akureyri og 9 í Reykjavík. Andrea Pálína Helgadóttir hefur verið ráðin til starfa á Fjármálasviði Saga Capital þar sem hún sinnir ýmsum bókhaldsstörfum, svo sem bókunum á gjaldeyrishreyfingum vegna fjárstýringar auk annarra bakvinnslustarfa tengdum fjárstýringu. Baldur Snorrason er nýr starfsmaður á sviði Eigin viðskipta Saga Capital og mun sinna hefðbundnum stöðutökum í hlutabréfum, skuldabréfum og afleiðum. Hólmfríður Sara Friðjónsdóttir er starfsmaður á Fjármálasviði Saga Capital og starfar þar meðal annars við flutning á verðbréfahreyfingum frá undirkerfum yfir í fjárhagsbókhald, afstemmingar, uppgjör og ýmis bókhaldsstörf tengd fjárstýringu bankans. Sumarliði G. Helgason er umsjónarmaður tölvu- og tæknimála Saga Capital og starfar á sviði Áhættustýringar innan bankans. Sumarliði heldur utan um viðhald og þróun upplýsingakerfa Saga Capital, stýrir innleiðingum nýrra kerfa og fer fyrir öryggismálum bankans. Þórleifur Stefán Björnsson er forstöðumaður í fjárstýringu og viðskiptaþróun hjá Saga Capital. Hann fæst við dagleg viðskipti á millibankamarkaði, þar með talin innlán og lántökur á íslenskum peninga- og skuldabréfamarkaði og alþjóðlegum peningamarkaði.