28. desember, 2007 - 09:33
Fréttir
Lögreglumenn á Akureyri eru greinilega í góðu formi en þeir hafa á skömmum tíma þurft að hlaupa uppi ökumenn sem yfirgefið hafa bifreiðar sínar og reynt að komast undan laganna vörðum á tveimur jafnfljótum. Lögreglumaður hugðist hafa afskipti af ökumanni bifreiðar á Akureyri í gærkvöld en þegar ökumaðurinn varð var við lögreglu gaf hann í og ók á mikilli ferð upp að fjölbýlishúsi í bænum. Þar stökk hann út úr bifreiðinni og reyndi að stinga lögreglumanninn af á hlaupum. Á hlaupunum kastaði ökumaðurinn frá sér meintum fíkniefnum. Lögreglumaðurinn hljóp manninn uppi og handtók hann. Ökumaðurinn reyndist vera undir áhrifum áfengis og einnig er grunur um að hann hafi ekið undir áhrifum fíkniefna. Sem fyrr segir er þetta er fjórði ökumaðurinn á stuttum tíma sem hlaupinn er uppi á Akureyri og grunaður er um akstur undir áhrifum fíkniefna.