Engin þrettándagleði Þórs í ár

Íþróttafélagið Þór stendur ekki fyrir þrettándagleði á Akureyri þetta árið. Þetta var ákveðið á fundi stjórnar félagsins í gær. Sigfús Ólafur Helgason formaður Þórs sagði að ekki væri með þessari ákvörðun verið að slá þrettándagleði af til frambúðar. Hann sagði að í gangi væru miklar framkvæmdir á svæði félagsins, auk þess sem komin væri ákveðin þreyta í framkvæmd þrettándagleðinnar. "Við ætlum að hugsa þetta upp á nýtt og stefnum að því að bjóða upp á þrettándagleði í framtíðinni," sagði Sigfús Ólafur en fyrsta þrettándagleði félagsins var haldin árið 1934. Eins og fram hefur komið standa yfir miklar framkvæmdir á félagssvæði Þórs við Hamar og eru gröfur, efnisflutningabílar og dráttarvélar fyrirferðamiklar á svæðinu. Verið er að taka efsta lagið af grasvellinum sunnan Hamars en þar er fyrirhugað að byggja upp nýjan grasvöll með hlaupabraut í kring. Að sögn Sigfúsar formanns Þórs er fyrirhugað að hækka völlinn um 40 cm og því er jafnframt verið að keyra möl á svæðið. "Það er gaman að sjá hversu mikið líf er hér," sagði formaðurinn og bætti við að fyrirhugaðar framkvæmdir væru mun umfangsmeiri en menn hefðu gert sér í hugarlund. Efsta lagið af Þórsvellinum er flutt upp á svokallað Sunnuhlíðarsvæði, þar sem dreift verður úr því en þar er einnig fyrirhugað að byggja upp aðstöðu fyrir knattspyrnu. Sigfús Ólafur sagði að einnig yrði keyrð möl á Sunnuhlíðarsvæðið og það látið síga. "Þá er þess ekki langt að bíða að farið verði í að taka úr stöllunum fyrir nýrri stúku," sagði Sigfús Ólafur en ný og glæsileg stúka verður byggð vestan við nýja völlinn sunnan Hamars.

Nýjast