Engin laun-bara inneign
Dóttir vinkonu minnar sótti um vinnu á veitingastað á Akureyri. Hún var ekki ein um það þannig að vinnuveitendur gripu á það ráð að láta umsækjendur vinna prufuvaktir. Ekkert óeðlilegt við það. Hún var ekki ráðin en önnur fékk vinnuna, eins og gengur og gerist. Útborgunardagur rann upp en engin komu launin.
Þegar stelpan hafði sambandi við veitingahúsið var henni sagt að launin væru 13.000 króna inneign á staðinn. Haldið var fram að þannig hafi verið samið. Stelpan kannaðist ekki við það og móðirin hafði samband við forsvarsmenn veitingahússins. Sú sem varð fyrir svörum staðhæfði það hins vegar. Stelpan sem er rúmlega 17 ára situr uppi með vinnulaun sem hún mundi ekki eftir að hafa samið um og í reynd kærir sig ekki um. Mér er spurn, hvert renna launatengdu gjöldin í svona samningi? Hver eru raunveruleg launaútgjöld staðarins með slíkum gjörningi? Hvert fara skattagreiðslur?
Hér er um ólöglegt athæfi að ræða. Skrifa þarf undir slíkt samkomulag af báðum aðilum. Það er með öllu ólíðandi að atvinnurekendur geti einhliða ákveðið hvort inneign sé greidd sem laun eður ei.
Enn og aftur hvet ég foreldra til að vera á varðbergi gagnvart duttlungum atvinnurekenda. Ekki er ýkja langt síðan að mikil umræða fór fram um jafnaðarkaup og í reynd má hún ekki sofna. Um hátíðina ber að greiða aukaálag vinni fólk á svokölluðum rauðum dögum og því ættu allir að hafa skoðað launaseðilinn vel í janúar. Ef í ljós hefur komið að ekki sé greitt eftir kjarasamningi á hiklaust að leita til verkalýðsfélaganna. Hér getur verið um að ræða þó nokkra upphæð sem launþegi missir. Látum ekki bjóða okkur né börnum okkar hvað sem er!
Helga Dögg Sverrisdóttir.