11. mars, 2008 - 14:35
Fréttir
Fyrirhugað er að bjóða út í vor endurbyggingu á Hörgárdalsvegi á svæðinu norðan við Möðruvelli og inn fyrir
Skriðu, alls um 8,6 kílómetra leið. Guðmundur Sigvaldason sveitarstjóri í Hörgárbyggð segir að mikil samgöngubót verði
að hinum nýja vegi. Nú liggur vegurinn um hlað tveggja bæja og að auki eru á þessum spotta tvær slæmar einbreiðar brýr. Hann segir
ytri hluta vegarins uppbyggðan og á honum þurfi ekki að gera miklar endurbætur en annað sé uppi á teningnum varðandi syðri hlutann.
Sá hluti verður lagður á öðrum stað en núverandi vegur og að auki verður allur spottinn lagður bundnu slitlagi. Gert er ráð fyrir
að framkvæmdum ljúki næsta haust. Þá stendur einnig til að endurbyggja síðar Dagverðareyrarveg, frá Hlíðarbæ og
niður að Gásum. Nú er unnið að hönnun og undirbúningi og gerir Guðmundur ráð fyrir að framkvæmdir verði tilbúnar til
útboðs í haust. Hann segir að um miklar framfarir verði að ræða þegar sá vegur verði kominn í gagnið, enda sé verið
að byggja upp menningartengda ferðaþjónustu að Gásum og gera megi ráð fyrir aukinni umferð á næstu árum um veginn.