Ekki sjálfgefið að Akureyri og Grímsey sameinist

Hjalti Jón Sveinsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir það ekkert sjálfgefið að Grímsey sameinist Akureyri. Hann sat hjá í bæjarráði þegar samþykkt var að verða við ósk Grímseyinga um viðræður um sameiningu. Hann sagði að það hefði fylgt því töluverður kostnaður þegar Hrísey sameinaðist Akureyri og því sé það spurning hvernig standa eigi að málum varðandi hugsanlega sameiningu við Grímsey. "Það er langt á milli Akureyrar og Grímseyjar og mér hefði fundist eðlilegra að þeir hefðu talað við nágranna sína í Dalvíkurbyggð." Hjalti Jón sagði að samfélagið í Grímsey væri mjög gott en að þar væru blikur á lofti. Það væri því ekkert sjálfgefið að Akureyringar væru tilbúnir að taka það samfélag að sér, sem væri að missa fótanna vegna fólksfækkunar, kvótinn væri að fara í burtu og fiskveiðar að dragast saman. "Þessar fyrirhuguðu viðræður eru án skuldbindinga en mér fannst ástæða fyrir fólk að velta þessu fyrir sér. Mér finnst þetta nokkuð langsótt og vil því skoða málið mjög vandlega. Mér finnst eðlilegra að við séum í nánu samstarfi við sveitarfélögin hér í Eyjafirði og þá ekki síst þau sem standa okkur næst," sagði Hjalti Jón, sem jafnframt telur alveg orðið tímabært að fara ræða sameiningu við Hörgárbyggð.

Nýjast