Ekki orðið við óskum um auknar fjárveitingar til leikskóla

Á fundi skólanefndar Akureyrar í gær var tekið fyrir erindi frá Önnu R. Árnadóttur og Björgu Sigurvinsdóttur leikskólastjórum f.h. leikskólastjóra í leikskólum Akureyrarbæjar, þar sem þær vilja koma á framfæri óánægju sinni vegna þess að ekki hefur verið komið til móts við óskir þeirra um auknar fjárveitingar til leikskólanna en í staðinn er veitt auknum fjármunum til að tölvuvæða grunnskólakennara. Í bókun skólanefndar kemur fram að fartölvuvæðing grunnskólakennara sé í samræmi við samstarfssamning meirihlutans í bæjarstjórn og átti að koma til framkvæmda skólaárið 2006-2007.

Skólanefnd býður leikskólastjórum og trúnaðarmönnum til fundar ásamt bæjarstjóra og formanni bæjarráðs, eftir áramót til þess að ræða þessi mál. Anna Lilja Sævarsdóttir óskaði eftir að bóka eftirfarandi fyrir hönd bakhóps leikskóla: "Bakhópur leikskóla vill árétta þá skoðun sem fram kemur í erindi því sem leikskólastjórar hafa sent skólanefnd. Það er gleðilegt þegar hægt er að auka það fjármagn sem fer til skólamála. Bakhópur telur hins vegar, eins og leikskólastjórar, að annar forgangur hefði mátt vera á nýtingu þessara fjármuna. Það er okkar von að þar sem þessi fartölvuvæðing var möguleg ári á undan áætlun, verði hægt að flýta fartölvum fyrir stjórnendur leikskólanna og breytingu á starfi aðstoðarleikskólastjóra sem því nemur. Það komi því einnig til framkvæmda ári á undan áætlun, eða árið 2008."

Nýjast