09. nóvember, 2007 - 14:31
Fréttir
Ekki verður hægt að opna skíðasvæðið í Hlíðarfjalli fyrir almenning um helgina eins og vonir stóðu til. Töluvert hefur verið framleitt af snjó í fjallinu þegar aðstæður leyfa en enn vantar herslumuninn í brekkuna við Fjarkann. Skíðaæfingar hófust þó hjá Skíðafélagi Akureyrar í vikunni og fara æfingar félagsins fram í Strýtu. Guðmundur Karl Jónsson forstöðumaður í Hlíðarfjalli sagði menn ekkert vera að fara á límingunum yfir stöðunni, enda væri aðeins 9. nóvember. "Það er ekki búið að opna nema um 30 skíðasvæði í heiminum, af þeim 3000-4000 skíðasvæðum sem til eru. Við sjáum til með hvort hægt verður að opna í Hlíðarfjalli um aðra helgi," sagði Guðmundur Karl en það ræðst af því hversu mikið snjóar á næstunni og/eða hversu mikið verður hægt að framleiða af snjó.