Ekkert að gerast í húsnæðismálum Kisukots Samþykkt í bæjarráði fyrir 10 mánuðum að hefja samningaviðræður
„Vægt til orða tekið þá er ég orðin mjög þreytt á þessu. Ég er reglulega spurð að því hvernig gangi að fá stuðning frá Akureyrarbæ við Kisukot, en staðan þar er bara sú sama og verið hefur, það virðist ekkert vera að gerast. Síðustu samskipti mín við bæinn voru í apríl á þessu ár. Ég hef send nokkra tölvupósta síðan en ekki fengið svör. Það er greinilegt að áhuginn er enginn,“ segir Ragnheiður Gunnarsdóttir sem hefur um árabil rekið athvarf fyrir ketti á heimili sínu, eða frá því í lok janúar árið 2012.
Um þessar mundir eru 15 aukakettir í Kisukoti og ekki allir tilbúnir að fara inn á heimili. „Það er mjög algengt að hér séu um 10 kettir aukalega, oftast fleiri og sérstaklega er margir hjá mér yfir sumarmánuðina. Ég gæti verið með fleiri, þörfin er slík, en það bara er ekki meira pláss,“ segir hún.
Bæjarráð Akureyrar samþykkti í byrjun nóvember á liðnu ári að hefja samningaviðræður við Kisukot sem miðuðu að því að starfseminni yrði komið fyrir í húsnæði sem uppfyllt þau skilyrði að fá starfsleyfi.
Mörg hundruð kisum bjargað – kostar vinnu, tíma og fjármagn
Stjórn Samtaka um dýravelferð á Íslandi skoraði einnig á liðnu ári á bæjarstjórn Akureyrar að styðja við það mikilvæga starf sem fer fram í Kisukoti. „Mörghundruð kisum hefur verið bjargað, það hefur kostað vinnu, tíma og fjármagn. Áframhaldandi starfsemi er tvímælalaust Akureyrarbæ í hag. Sveitafélög hafa aðstoðað samsvarandi starfsemi, má þar nefna Akranes sem útvegaði félaginu Villiköttum húsnæði. Mikilvægt er að sveitafélög láti til sín taka í málum sem varða velferð dýra,“ segir í áskorun Samtaka um dýravelferð.
Fram kemur í minnisblaði sem tekið var saman í fyrra, að sex sveitarfélög á landinu styrkja svipaða starfsemi og Kisukots í formi húsnæðis ásamt hita og rafmagni og fleira sem til þarf vegna reksturs undir slíka starfsemi. Talið er að húsnæðið undir kattaathvarf þurfi að vera um 50 m² að stærð. Beinn stuðningur við húsnæði af þeirri stærð yrði um 150 þúsund krónur á mánuði.
Bæjarráð Akureyrar samþykkti í nóvember í fyrra að hefja samningaviðræður við Kisukot um að koma starfseminni út af heimili í bænum og í húsnæði sem uppfyllti kröfur fyrir starfsleyfi. Ekkert hefur gerst enn og er Ragnheiður Gunnarsdóttir sem rekur Kisukot orðin langþreytt á stöðunni. Hún er með 15 auka ketti hjá sér um þessar mundir.
Leitum að hentugu húsnæði
„Við höfum verið að leita af hentugu húsnæði á góðum stað,“ segir Heimir Örn Árnason formaður bæjarráðs Akureyri. „Það hefur því miður ekkert hentugt dottið inn á borð hjá okkur.“ Kveðst Heimir Örn svo sannarlega vonast til að málið leysist á næstu mánuðum.