26. febrúar, 2008 - 15:32
Fréttir
Forsvarsmenn Akureyrarbæjar og EJS undirrituðu í dag samning um kaup bæjarins á tölvubúnaði og þjónustu sem því tengist til
næstu fimm ára. Um er að ræða stærsta samning EJS Akureyri hingað til en Akureyrarbær er með um 1000 tölvur í rekstri. Tölvurnar
sjálfar koma frá Dell og áttu forsvarsmenn Dell beina aðkomu að undirbúningi samningsins með verðtilboði sem skilar Akureyrarbæ verulegum
ávinningi. Samningurinn er að undangenginni verðkönnun Akureyrarbæjar hjá þremur aðilum og reyndist tilboð EJS Akureyri hagstæðast.
Óskað var eftir verði í skilgreindar vélar en ekki er kveðið á um í samningnum hversu margar vélar verða keyptar á
samningstímanum.
EJS hefur síðustu fimm árin átt samstarf við Akureyrarbæ á hliðstæðum grunni og því verður um beint framhald á
þeim samningi að ræða til næstu fimm ára. "Samningurinn er okkur mjög mikilvægur, ekki síst í því ljósi að við
höfum átt gott samstarf við Akureyrarbæ á undanförnum árum. Um leið er þetta áfangi í að tryggja frekari vöxt EJS á
Norður- og Austurlandi. Við þekkjum vel til tölvuumhverfis bæjarins eftir síðasta samning og Dell vélar eru nú orðnar nánast
allsráðandi í allri starfsemi bæjarins. Þar hafa þær sýnt og sannað ágæti sitt. Aðkoma yfirmanna Dell í Evrópu
að tilboði okkar sýnir líka hversu ríka áherslu við lögðum á að tryggja Akureyrarbæ sem hagstæðast verð," segir Reynir
Stefánsson, svæðisstjóri EJS á Norðurlandi, en fyrirtækið veitir heildarlausnir á sviði upplýsingatækni, rekur verslun og
verkstæði á Akureyri, sem og hýsingu, símkerfaþjónustu, kerfisleigu, rekstrarþjónustu, veitir fyrirtækjarráðgjöf og
fleira. Starfsmenn eru nú 23 talsins.
Gunnar Frímannsson, verkefnisstjóri hjá Akureyrarbæ, segir góða reynslu af fyrri samningi við EJS Akureyri og ánægjulegt að
samstarfið sé nú endurnýjað til næstu fimm ára. Hann segir samninginn mjög hagstæðan fyrir Akureyrarbæ en tilboð EJS reyndist
afgerandi best í áðurnefndri verðkönnun. "Hjá Akureyrarbæ eru í heild um 1000 tölvur í rekstri og því er um nokkuð
viðamikinn þátt að ræða í starfsemi bæjarins. Vélbúnaðurinn sem slíkur skiptir auðvitað miklu máli og reynsla okkar
af Dell vélunum hefur verið góð. Hins vegar skiptir ekki síður máli fyrir okkur að þjónustan að baki vélbúnaðinum
sé traust og áreiðanleg. Af reynslunni vitum við að hverjum við göngum hjá EJS á Akureyri hvað þetta varðar og fögnum
því að eiga áfram aðgang að þeirri þjónustu," segir Gunnar.
Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri og Örn Þór Alfreðsson, framkvæmdastjóri búnaðarlausna EJS, undirrituðu
samninginn fyrir hönd samningsaðila en viðstaddir undirskriftina voru Reynir Stefánsson, svæðisstjóri EJS á Norðurlandi, Alfreð Markússon,
viðskiptastjóri EJS Akureyri, Gunnar Frímannsson, verkefnisstjóri hjá Akureyrarbæ, og Jón Bragi Gunnarsson, hagsýslustjóri
Akureyrarbæjar.