Eiríkur Sigurðsson skipstjóri skrifar um Svalbarðadeiluna og átök á hafinu 1994

Hágangur II, Halli kóngur og Toni á Hrísum

 

Þegar deilurnar um fiskveiðiréttindi á norðurslóðum stóðu sem hæst í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar, var ég skipstjóri á Hágangi II, sem Hraðfrystistöð Þórshafnar og Tangi á Vopnafirði gerðu út í sameiningu. Skipið hafði verið keypt árið áður frá Kanada ásamt systurskipi, Hágangi I, og var ætlunin að stunda veiðar við Svalbarða og á alþjóðlegu hafsvæði sem nefnist Smugan og liggur þar sem 200 sjómílna lögsögur Svalbarða og rússnesku eyjarinnar Novaya Zemlya ná ekki saman til vesturs og austurs, en Norska landhelgin setur mörkin til suðurs.

Skipin voru af hagkvæmnisástæðum skráð í Mið-Ameríkuríkinu Belize, en höfðu að öðru leyti engin tengsl þangað. Áhöfnin var skipuð Íslendingum, Færeyingum og einum Rússa og var aflinn saltaður um borð. Rússinn var fjölbreyttari kostum búinn en flestir menn og ekki orð um það meir. Hann hafði þar að auki þannig tengsl við íslensku ríkisstjórnina og fleiri, í gegnum flókin kvennamál, að við töldum að sú staða gæti komið upp að betra væri að hafa hann í okkar liði.

 

Gandreið á hafinu 

Það höfðu staðið deilur um rétt Íslendinga og fleiri þjóða til veiða á þessu svæði en við töldum okkur í fullum rétti á grundvelli Svalbarðasáttmálans. Norðmenn töldu svæðið norskt yfirráðasvæði og létu eins og þeir ættu það allt skuldlaust með öllum þess auðlindum, þar með talið fiskistofnum.

Þegar leið á sumarið fóru deilurnar harðnandi og norska ríkisstjórnin ákvað að senda freigátur sínar á vettvang til að klippa á togvíra togaranna og að stugga okkur í burtu. Þetta voru mörg herskip og þar á meðal stærstu og öflugustu skip norska strandgæsluflotans, m.a. Kv. Andenes, Kv. Nordkapp og Kv. Senja, sem á eftir að koma meira við sögu og var búin fjórum 3600 hestafla aðalvélum eða samtals 14.400 hestöfl.

Senja var feyki öflugt skip og ógnvekjandi þegar hún kom stundum dansandi á yfir 20 sjómílna fart og stefndi út og suður en beygði á síðustu stundu til að forða árekstri.  Var það mikil gandreið. Drunurnar í þessu  hrossastóði voru skelfilegar þegar þeim var hleypt á skeið og fóðrið ekki skorið við nögl, enda olíuskortur ekki helsta áhyggjuefni Norðmanna, eins og kunnugt er.

Íslensku varðskipin höfðu náð góðum árangri í Þorskastríðunum með því að beita togvíraklippum og margoft tekist að halaklippa Bretana þannig að þeir lágu óvígir eftir. Þessar víraklippur, sem voru hannaðar af Pétri Sigurðssyni fyrrverandi forstjóra Landhelgisgæslunnar, voru öflugt tæki en ég veit ekki hvort norska strandgæslan fékk teikningar og upplýsingar þaðan en a.m.k. voru þeir búnir að koma sér upp nákvæmlega eins búnaði.

En það er skemmst frá því að segja að Norsararnir náðu aldrei tökum á þessari tækni og var snautlegt oft að horfa á aðfarirnar, sem aldrei heppnuðust. Það er hætt við að Haraldur Ólafsson hefði orðið skömmustulegur ef hann hefði séð aðfarir sinna bestu manna. Við vissum alveg hvað það var sem klikkaði hjá þeim en verður ekki upplýst hér.

 

Rófulausir rakkar með klippurnar úti! 

 Til að gera skömm norsku „tindátanna“ enn meiri, gerðum við okkur það stundum að leik að slaka bara toghlerunum út nokkra faðma með grandara á milli en trollið skilið eftir á dekki svo engin von var til þess að „klipping“ tækist. Svona rúntuðu þeir eins og rófulausir rakkar, með klippurnar úti, í kringum okkur á mikilli ferð þannig að boðaföllin stóðu í allar áttir, tímum saman. Þetta var vægast sagt vafasöm sjómennska en stjórnhæfni freigátanna bjargaði því að ekki varð slys.

Einu sinni sem oftar vorum við orðnir leiðir á þessum leik og höfðum skemmt okkur nægilega við að horfa á aðfarirnar, hífðum hlerana upp í gálga og sigldum burtu. Að sjálfsögðu fylgdi ekkert troll með, því það lá allan tímann á dekkinu, en fulltrúar Halla kóngs héldu í fávísi sinni að þeir hefðu klippt aftan úr okkur og brutust út gífurleg fagnaðarlæti um borð í freigátunni.

Daginn eftir komu fréttir í norsku blöðunum um afrekið með stríðsfyrirsögnum á borð við; „Norska strandgæslan klippti trollið aftan úr Hágangi II, einum af harðsvíruðustu íslensku ræningjunum á Svalbarðasvæðinu“. Með fylgdu viðtöl við æðstu yfirmenn strandgæslunnar þar sem þeir hreyktu sér af „hetjudáðinni“.

En þar kom að piltar hans hátignar, Haraldar Ólafssonar Noregskonungs, áttuðu sig á því að aðfarirnar voru ekki að virka sem skyldi, eða svo nákvæmara sé að orði komist, þá voru þær fullkomlega gagnslausar, nema okkur til skemmtunar. En þá tók ekki betra við því þeir smíðuðu mini-útgáfu af klippunum, hengdu aftan í léttbáta freigátanna og sigldu þeim á fullri ferð með draslið hangandi aftur úr sér.

Sem betur fer fyrir þá tókst sú aðferð ekkert betur en hin fyrri því það hefði getað orðið hættulegt fyrir sjóliðana ef þeir hefðu flækt vasaklippurnar í trollinu eða togvírunum.

 

Toni á Hrísum og norsku dátarnir

Eitt sinn þegar við vorum að hífa í Leirdýpi, austur úr Bjarnarey og um 30 sjómílur norðan við norsku landhelgislínuna, voru piltar konungs á léttbátnum að sniglast við rassgatið á okkur en við höfðum áhyggjur af því að þeir færu sér að voða. Ég kallaði því í freigátuna á neyðarrásinni CH-16 og krafðist þess að þeir kölluðu bátinn til baka og ég gæti ekki tekið ábyrgð á öryggi sjóliðanna, eins og þeir höguðu sér. Við því varð ekki orðið og þeir héldu áfram sinni iðju með klippu-líkið hangandi aftan úr sér.

Okkur leist ekkert á blikuna og stoppuðum hífinguna um stund en þegar við héldum áfram lenti klippan á togvírnum bakborðsmegin og kom upp í gegnum blökkina en slitnaði frá léttbátnum. Ekki dugði það til að þeir hættu þessum heimskupörum og eftir að hlerarnir komu upp og við vorum að hífa trollið inn, voru þeir að reyna að festa eitthvað drasl sem við vissum ekki hvað var en líklega annað klippu-líki í trollpokann sem flaut fullur af fiski aftan við skipið. Ég kallaði niður á dekk og sagði mínum mönnum að taka spúlinn og sprauta á þá af fullum krafti til að koma þeim í burtu, en það dugði ekki alveg þó þeir fengju einhverjar gusur á sig.

 Á meðan á þessu öllu stóð var stýrimaðurinn Anton Ingvason frá Dalvík á dekki og stjórnaði aðgerðum röggsamlega. Anton er maður mikill á velli og hraustari en andskotinn og því hlýtur að hafa farið um dátana þegar hann birtist skyndilega uppi á afturgálga með haglabyssu og stóð þar eins og Rambó sjálfur en í miklu stærri og vígalegri útgáfu. En þeir höfðu samt ekki vit á að vera nógu hræddir til að hörfa og því greip Anton til þess ráðs að skjóta einu skoti upp í loftið, þeim til viðvörunar. Þá en ekki fyrr kviknaði ljóstýra í kolli dátanna og þeir áttuðu sig á því að líklega væri ekki hollt fyrir líf og limi að abbast meira upp á Tona á Hrísum og hörfuðu í snarhasti, með eldglæringarnar aftan úr rassgatinu, heim til mömmu þ.e. freigátunnar Kv. Senja, sem beið álengdar.

Áföll og lífsreynsla byrjuðu sem sé ekki að setja mark sitt að ráði á dátana, fyrir en þeir kynntust  Tona en fram að þessu litu þeir út fyrir að vera nýhættir að nota bleyjur en hafa sennilega byrjað á því aftur þegar þeir komu til baka í Senju, í tilefni dagsins.

 

Skuggaleg atburðarás

Nokkru síðar kallaði skipherrann á Senju í okkur í talstöðinni, ábúðarfullur mjög og bar sig illa yfir meðferðinni á dátunum sem hann sagði hafa verið í bráðri lífshættu og að skotið hafi verið á þá. Ég svaraði og sagði það rétt að þeir hefðu verið í lífsháska en það væri eingöngu vegna þess að hann sjálfur hefði sent þá í þessa glórulausu heimskuför og stýrimaðurinn hefði verið á fuglaveiðum en ekki skotið á dátana. Ég sagði honum jafnframt að við værum vanir því að alls konar „fuglar“ og illþýði væri á sveimi í kringum skipið, sem styggja þyrfti í burtu, en hann þóttist ekki skilja hvað ég meinti með því.

Nú hófst skuggaleg atburðarás sem byrjaði með því að skipherrann krafðist þess að við stöðvuðum skipið, því hans menn ætluðu að koma um borð og rannsaka morðtilræðið og lýkur hér með allri léttúð í þessari frásögn. Ég snarneitaði að stoppa og sagði ekkert morðtilræði hafa átt sér stað, en ítrekaði söguna um fuglana. Þeir ætluð sér samt að komast um borð, með góðu eða illu svo ég setti á fulla ferð í átt til Íslands til að gera þeim það erfiðara og lét manna allar spúlslöngur skipsins. Kv. Senja fylgdi okkur eftir og þeir ítrekuðu kröfuna um að stoppa skipið margsinnis.

Þegar svo hafði gengið í nokkra klukkutíma tilkynnti skipherrann að hann hefði fyrirskipun frá norskum stjórnvöldum um að stoppa skipið með öllum ráðum og skjóta á okkur ef ekki annað dygði. Við vorum allan tíman í sambandi við Senju í gegnum talstöðina og það var ekki hægt að misskilja að þeim var full alvara með þessari hótun, en ég lét mig ekki og hélt fullri ferð sem gerði þeim ómögulegt að komast um borð.

Um síðir kom freigátan mjög nærri okkur á sömu ferð og skipherrann tilkynnti að nú mundu þeir byrja að skjóta á okkur úr fallbyssunni og bað mig um að tryggja að allur mannskapurinn yrði í brúnni, því þeir ætluðu ekki að skjóta á hana. Ég tilkynnti á móti að mannskapurinn væri dreifður út um allt skip við störf sín og það væri á hans ábyrgð ef einhver slasaðist. Það var auðvitað haugalygi og allur mannskapurinn var í brúnni, en ég kærði mig ekkert um að hann vissi það og trúði því ekki að þeir mundu skjóta samt.

Við þrefuðum eitthvað um um þetta og hann hélt áfram að tuða um að hann hefði ströng fyrirmæli frá æðstu stöðum, sem ég reiknaði með að hlyti að vera Halli kóngur sjálfur, um að stoppa okkur strax og mundi byrja að skjóta núna.

Svo byrjuðu lætin með því að þeir komu sér í færi og skutu einu skoti aftarlega á skipið, ofan sjólínu. Það var mikið högg og glumdi í skipinu. Síðan kom annað skot, með engu minni látum, sem virtist koma á svipaðan stað á skipið en við vorum ekki vissir um hvort það var ofan eða neðan sjólínu. Ég kallaði því í Senju og sagðist vilja skoða skemmdirnar og vildi að hann hætti að skjóta á meðan.

Skipherrann lofaði því að skjóta ekki aftur fyrr en ég hefði kallað í hann og fórum við yfirvélstjórinn því í könnunarleiðangur og sáum fljótlega götin og að miðað hafði verið á stýrisvélina og hún lítillega skemmd en samt gangfær. Götin voru bæði rétt fyrir ofan sjólínu og sáum við Senju út um þau. Það var auðvitað mjög klókt að reyna að gera stýrisvélina óvirka því þá yrðum við að stoppa en höfðum annars haldið fullri ferð allan tímann.

Við fórum því næst upp í brú og ég kallaði í Senju og sagðist vera búinn að skoða skemmdir en við mundum halda áfram  og það væru menn afturí skipinu við viðgerðir á þeim stað sem hann skaut á. Öll áhöfn mín var í brúnni og heyrði samskiptin. Ég veit ekki hvað þeir hugsuðu en ekki bar á hræðslu hjá nokkrum manni, þó líklega hafi verið ástæða til. Þetta voru mest ungir og hressir strákar sem leiddist ekkert að atast í Nojurunum, en sennilega hefur þeim þótt nóg komið þarna, þó enginn hefði orð á því. Ég trúði því aldrei fyrr en á reyndi að fyrrverandi frændur vorir, Norðmenn, mundu láta verða af hótun sinni og skjóta á okkur.

 

Fuglafæling – ekki morðtilræði!

Ástæðan fyrir því að ég vildi ekki hleypa þeim um borð var sú að við áttum í fiskveiðideilum og útgerðin taldi að þeim væri ekki heimilt að krefjast þess að koma um borð til að skoða afla og veiðarfæri og það var stefnan að norsk yfirvöld kæmu ekki um borð. Íslensk skip höfðu áður þetta sama ár verið tekin, færð til hafnar og útgerðir og skipstjórar sektuð. Svo var þetta haglabyssumál sem ég vissi ekki hvernig á yrði tekið, en óttaðist að þurfa að sigla til hafnar með tilheyrandi kostnaði og töfum frá veiðum.

Til að það sé alveg skýrt þá miðaði Anton að sjálfsögðu ekki á léttbátinn eða sjóliðana og ætlaði auðvitað ekki að skjóta neinn, þó Senjumenn kölluðu þetta morðtilræði. Anton þurfti ekkert leyfi frá strandgæslunni til að skjóta eða fæla „fugla“, sem voru þá eins og nú, utan kvóta. Við vissum svo sem að strandgæslan myndi nota hvaða tækifæri sem gæfist til að færa skipin til hafnar og búa til vesen og þarna gafst kjörið færi sem greinilega átti að fullnýta.

Það hægði ekkert á ofstopa og skotgleði Senjumanna að ég segði þeim að það væru menn við viðgerðir á þeim stað skipsins sem þeir voru að skjóta á og fljótlega kom þriðja skotið, með sama djöfulgangi og hin fyrri og á sama stað en, viljandi eða óviljandi, rétt neðan sjólínu.

Þá áttaði ég mig á því að þeir væru tilbúnir að ganga alla leið til að stöðva skipið og mundu sökkva því ef ekki annað dygði. Það var því ekki forsvaranlegt að halda lengur áfram og ég tilkynnti skipherranum á Kv. Senja að ég mundi stoppa skipið og gerði það. Þriðja skotgatið reyndist hafa komið á nær sama stað, en rétt neðan sjólínu og var því nóg að halla skipinu aðeins yfir á bakborða með því að dæla olíu á milli tanka til að sjór hætti að leka inn.

Fljótlega kom fullmannaður léttbátur frá Senju yfir til okkar og sjóliðarnir ruddust þungvopnaðir um borð. Þeir tilkynntu okkur að þeir ætluðu með skipið til Tromsö og myndu draga okkur ef við neituðum að sigla sjálfir. Ég sagðist ætla að sigla, en það voru auðvitað stór mistök að láta nojara-helvítin ekki draga okkur og geta þar með drepið á aðalvél og sparað olíu. En svona var hamagangur síðustu klukkutíma búinn að fara með mann að ég hafði ekki rænu á því.

Siglingin til lands gekk tíðindalaust, með vaktaskiptum sjóliðanna af Senju sem fylgdust grannt með öllum okkar gjörðum, en lítill friður frá norskum og íslenskum fjölmiðlum sem linntu ekki látum eftir að við komumst í samband við strandstöðvar. Þetta var fyrir tíma gervihnatta- og netsíma um borð í skipum og okkar eini möguleiki til fjarskipta var í gegnum strandstöðvar á bylgjum sem allir gátu hlustað á.

Það var ekki fyrr en allt var yfirstaðið að mér tókst að ná sambandi við útgerðina, en þá kom í ljós að þeir höfðu fengið upplýsingar frá öðrum skipum og vissu nokkurn veginn hvað gekk á. Það var því ákveðið að senda okkar besta lögmann í þessum málum, Friðrik J. Arngrímsson, seinna framkvæmdastjóra LÍÚ, til Noregs og átti hann að vera tilbúinn á kajanum ásamt norskum lögmanni þegar við kæmum til lands.

 

Í grjótinu í Tromsö

Þegar við komum til Tromsö vorum við Anton umsvifalaust færðir fyrir dómara og því næst stungið beint í steininn fyrir fiskveiðibrot og skotárás á pilta hans hátignar. Þar máttum við dúsa þar til daginn eftir, uppá vatn en ekkert brauð og vorum að verða hungurmorða þarna í dýflisunni. Anton hefur örugglega verið mun verr haldinn en ég, þar sem það þarf slatta til að viðhalda slíkum búk þannig að ekki rýrni.

Þarna var skrautlegur söfnuður í næstu klefum sem dundaði sér við margvísleg öskur og gól alla nóttina, miður fögur. Hugsanlega hefur safnið ekki verið þverskurður norsku þjóðarinnar, en þó ekki útilokað. Þetta er í fyrsta og eina skiptið á ævinni sem ég hef þurft að dúsa í grjótinu og mun ekki sækjast eftir annarri slíkri vist, a.m.k. ekki hjá Norðmönnum.

Um hádegisbil daginn eftir hafði lögmönnunum tekist með þvargi að fá mig lausan gegn tryggingu en Anton þurfti að dúsa áfram vegna hinnar meintu skotárásar, en var fluttur á heldur vistlegri stað þar sem helst bar til tíðinda að álitlegasti kvenmaður gegndi stöðu fangavarðar og hýrnaði því vel yfir Tona, sem allt í einu sá óvænt tækifæri til að halda áfram veiðum þó trollið lægi á dekki og snúa þannig á nojarana.

Við sigldum því út frá Tromsö og settum stefnu á Vopnafjörð með nýjan stýrimann sem hafði verið sendur í snarhasti frá Íslandi. Þar var landað, gert við skemmdir og skipið útbúið í næsta túr.

 

Þjóðhetja á Dalvík

Fáum dögum síðar var Anton látinn laus líka, gegn tryggingu,  kom heim til Íslands en áðurnefndur fangavörður, varð eftir úti. Antoni var fagnað sem þjóðhetju á Dalvík við heimkomuna með ræðuhöldum og rugli.  Seinna um haustið þegar málið var tekið fyrir í Tromsö vorum við staddir í Smugunni en sigldum inn til Honningsvog, sem er smábær rétt austan við Nordkapp, nyrsta odda Evrópu.  Ókum við félagarnir til réttarhalda í Tromsö, sem voru svo arfaleiðinleg að engu tali tekur og snerust að mestu um hvort haglabyssuskotið fræga hefði verið púðurskot eða með höglum í. Það var Norðmönnum líkt að hengja sig á svoleiðis aukaatriði og tittlingaskít.

Lyktir málsins urðu þær að ég og útgerðin vorum sýknuð af öllum ákærum en Anton var dæmdur til betrunar í tugthúsi fyrir haglabyssuskotið. En þar sem augljóst þótti að Toni yrði ekkert „betri“ fékk hann að taka það út í samfélagsþjónustu á Íslandi og vann nokkra mánuði við að sinna björgunarsveitarmálum ofl.  á Dalvík.

Fljótlega eftir þetta sömdu Íslendingar og Norðmenn um þessar veiðar og því varð ekkert framhald á svona æfingum.

 

Kóngur skömmustulegur á Saga Class

Rúmlega tuttugu árum seinna neyddist ég svo til að deila flugvél með kóngsa og vígalegu föruneyti hans á leið minni til Noregs. Ég sá að hann var heldur skömmustulegur til augnanna en yrti ekki á mig, lét lítið fyrir sér fara og faldi sig á heldri manna farrými kenndu við Sögu og þær systur báðar, hana og Class. Dreg ég af því þá augljósu ályktun að hann skammist sín ennþá fyrir að hafa att piltum sínum á þetta forað, og skyldi engan undra.

Þekktur kjaftaskur missti eitt sinn út úr sér, óvart, að eini gallinn við það fallega land Noreg væri að þar væri allt vaðandi í Norðmönnum. Það var löngu eftir að Ingólfur Arnarson frá Hrífudal gaf skít í þá og sigldi til vesturs í leit að skemmtilegri félagsskap.

 

Eiríkur Sigurðsson


Athugasemdir

Nýjast