Einn fluttur á slysadeild eftir árekstur

Sendiferðabíll lenti í árekstri við tvo fólksbíla, þar af annan kyrrstæðan, á Tryggvabraut á Akureyri í morgun. Ökumaður sendibílsins var fluttur á slysadeild FSA til aðhlynningar og allir skemmdust bílarnir nokkuð en voru þó ökufærir, samkvæmt upplýsingum lögreglu. Sendibíllinn ók á eftir öðrum fólksbílnum í austurátt eftir Tryggvabraut en á móts við Axelsbakarí ætlaði sendibíllinn framúr fólksbílnum hægra megin. Ekki vildi betur til en svo að sendibíllinn skall á fólksbílnum og svo á kyrrstæðum og mannlausum fólksbíl við bakaríið. Átta umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á Akureyri í gær en þá var færð víða slæm og töluverð hálka. Engin alvarleg slys urðu þó á fólki í þessum óhöppum. Um hádegisbil í gær missti ökumaður stjórn á bifreið sinni með þeim afleiðingum að hún hafnaði í Eyjafjarðará. Ökumaðurinn slapp með skrekkinn en bíllinn er mikið skemmdur. Um klukkustund síðar missti annar ökumaður stjórn á bifreið sinni í krapa á Eyrarlandsvegi. Bifreiðin hafnaði á ljósastaurum sem standa við göngustíg við Akureyrarkirkju. Bifreiðin skemmdist mikið og þurfti að kalla eftir dráttarbifreið til að draga hana á brott. Þá þurfti dráttabíll að sækja bifreið í Vaðlaheiði um miðjan dag. Bifreiðinni hafði verið lagt út í vegarkanti og ók önnur bifreið á hana með þeim afleiðingum að sú kyrrstæða kastaðist langt út fyrir veg. Ökumann sakaði ekki en báðir bílarnir eru mikið skemmdir.

Nýjast