Eigandi Axels ósáttur við ummæli starfsmanns Landhelgisgæslunnar

Flutningaskipið Axel, sem er í eigu Dregg Shipping á Akureyri, kom til heimahafnar sl. nótt. Skipið kom frá Kleipeda í Litháen þar sem fram fór endanleg viðgerð á því eftir strandið í innsiglingunni við Hornafjörð undir lok síðasta árs. Axel hafði hafði viðkomu á Vopnafirði á leið sinni til Akureyrar og tók þar farm, sem siglt verður með áfram til Ísafjarðar í kvöld. Frá Ísafirði verður siglt til Tálknafjarðar, Sandgerðis og svo áfram með fullfermi til Danmerkur og í Eystrasaltið, að sögn Ara Axels Jónssonar hjá Dregg. Ari er mjög ósáttur við ummæli sem Halldór Nellett hjá Landhelgisgæslunni viðhafði í viðtölum í fjölmiðlum á meðan skipið var á leið til Akureyrar eftir strandið. "Það var ausið yfir okkur svívirðingum í fjölmiðlum allan þann tíma sem við vorum að koma skipinu til hafnar, þar sem hvorki áhöfnin eða við höfðum tækifæri til að verja okkur. Sumir þurfa að svara fyrir það, aðrir ekki. Mennirnir áttu engan annan kost en að koma skipinu til hafnar og stóðu sig virkilega vel. Lögreglurannsóknin leystist upp í skítalykt og annað þar fram eftir götunum. Þetta er alveg fáheyrt og ég man ekki eftir að embættismaður hafi hagað sér svona þegar einhver á í erfiðleikum. Á þessum sama tíma varð stórbruni á Árskógsströnd þar sem tjón varð álíka mikið og aðgerðir tóku álíka langan tíma. Ég sá ekki slökkviliðsstjórann eða lögregluvarðstjórann ausa svívirðingum yfir fólkið á meðan það brann ofan af því. Það hagar enginn embættismaður sér svona. Halldór mætir í fjögur sjónvarpsviðtöl á þessum tíma áður en skipið nær í höfn og talar niðrandi um okkur í öll skiptin. Þetta er háalvarlegt mál, síðan eru spurningar og annað í sjóprófunum byggðar á þessu. Svona umræða á að fara fram í sjóprófum en ekki í beinni útsendingu frá manni sem virðist ekki valda starfi sínu og gæta lágmarks þagmælsku. Þegar svo í sjóprófunum var farið að rekja þetta, féll þetta allt um sjálft sig og þar er allt til á upptökum," sagði Ari.

Hann sagði að það hefðu verið erfiðleikar við að koma vélinni í gang eftir strandið, þar sem öllu skipinu sló út en vélstjóranum hafi tekist að koma henni í gang. "Þá er ekkert sjálfgefið að lensa upp úr frystiskipi sem er keyrt á fullu frosti. Þegar skipið fór að leka meira fór að þiðna og þá var hægt að nota dælukerfi skipsins sem var alveg óvirkt til að byrja með." Ari segir að þrátt fyrir allt hafi hlutirnir gengið vel og því hafi verið algjörlega ástæðulaust fyrir starfsmann Landhelgisgæslunnar að haga sér með þessum hætti. "Ég ætla ekki að sitja undir því að hlusta á rangfærslur um málið til æviloka. Landhelgisgæslan er virt stofnun, það voru baráttumenn sem unnu henni þann sess og ég vill ekki sjá það tætt niður með þessum hætti," sagði Ari, sem er hvergi banginn, enda næg verkefni framundan.

"Við höfum fyrir margt að þakka, það var langt frá því að vera sjálfgefið að allir slyppu heilir frá strandinu og að skipið héngi uppi í kjölfarið," sagði Ari. Aðeins 11 Rússar voru í áhöfn skipsins sem kom frá Litháen í nótt en til stendur að Íslendingar verði einnig í áhöfn.

Nýjast