Dropinn holar steininn - en það gerir steinbor líka!

Margrét Kristín Helgadóttir.
Margrét Kristín Helgadóttir.

Sveitarfélag veitir allskonar þjónustu og tekur allskonar ákvarðanir. Við erum svo með allskonar notendur þjónustunnar. Við þurfum að gæta þess að þjónustan henti sem flestum notendum og að ákvarðanir okkar lendi ekki af fullum þunga á einum samfélagshópi umfram annan. Ákvarðanir Akureyrarbæjar hafa áhrif á atvinnulíf, tekjudreifingu, útgjöld og frítíma bæjarbúa.

Til þess að gæta jafnræðis þurfum við að skoða þjónustuna og notendurna út frá ýmsum vinklum, þar á meðal kynjavinkli. Fjárhags- og starfsáætlanir okkar endurspegla forgangsröðun verkefna hjá Akureyrarbæ og vegna mismunandi stöðu kvenna og karla í samfélaginu geta þær áætlanir haft ólík áhrif á kynin. Til dæmis gæti ákvörðun bæjarins um að hækka leikskólagjöld bitnað frekar á öðru kyninu meðan að aukagjaldið á sorphirðuna gæti bitnað ver á hinu kyninu. En við vitum það ekki nema að safna upplýsingum.

Kynjuð fjárhags- og starfsáætlun er stefnumótunartæki sem hefur verið nýtt víða um heim í allmörg ár og snýst einmitt um að safna upplýsingum um hvernig þjónusta eða ákvarðanir bæjarins reynast hvoru kyninu með það að leiðarljósi að geta brugðist við ef þurfa þykir og jafnað stöðuna. Sífellt fleiri borgir eru nú að vinna að því að innleiða hana sem hluta af verklagi fjárhagsáætlunar. Slík innleiðing krefst fyrst og fremst vinnu og viðhorfsbreytinga. Það er vinna sem mun skila sér margfalt til baka og leiða til skilvirkari verkferla og aukins sýnileika í nýtingu fjármagns svo dæmi séu tekin.

Í samstarfssamningi sínum styðst núverandi meirihluti við kynjaða fjárhagsáætlun og er það mikið fagnaðarefni.  En það er á sama tíma mjög mikilvægt að vanda vel til verka. Kynjuð fjárhagsáætlunargerð verður ekki innleidd án þekkingar á  markmiðum jafnréttisstefnu, nauðsyn kerfisbreytinga og því hvernig misrétti kynjanna lýsir sér. Að baki slíkri innleiðingu er jafnframt mikilvægt að sé að finna pólítíska skuldbindingu.  

Síðasti meirihluti hóf vinnu við kynjaða fjárhagsáætlunargerð hjá Akureyrarbæ. Þau tilraunverkefni sem farið var af stað með skiluðu vissulega einhverju góðu; þau fengu stjórnendur og kjörna fulltrúa til að hugsa og það hlýtur að vera fyrsta skrefið í áttina að breytingum. Dropinn holar steininn, eins og sagt er. Þó að góður vilji hafi greinilega verið til staðar virðist hafa vantað þessa pólitísku skuldbindingu sem þarf og aðgerðaráætlun til lengri tíma. Til dæmis kom í ljós í einu tilraunverkefninu að mikill meirihluti viðskiptavina í tómstundastarfi fullorðinna hjá Handverksmiðstöðinni eru konur og mikill meirihluti starfsmanna eru konur.  Það þýðir að það fjármagn sem lagt er til Handverksmiðstöðvarinnar nýtist fyrst og fremst konum. Eins kom fram að konur voru 82,5% þátttakenda í fræðslufundum á vegum símenntun bæjarins meðan karlar voru 17,5%. En hvað svo? Eru þetta ásættanlegar niðurstöður eða kallar þetta á einhver viðbrögð til að jafna út muninn? Til hvers að safna upplýsingum og kyngreina þær ef ekki á að vinna með þær upplýsingar áfram?

 

Þónokkuð frumkvöðlastarf hefur verið unnið á þessu sviði. Enn er þó umtalsvert svigrúm til umbóta varðandi kynjaða fjárhagsáætlunargerð hjá Akureyrarbæ. Til þess að innleiða kynjaða fjárhagsáætlunargerð hjá Akureyrarbæ til fulls þarf pólítískan vilja, virka eftirfylgni og sterkt utanumhald. Núverandi bæjarstjórn er sammála um að gera þetta upp á tíu og samþykkti tillögu á síðasta bæjarstjórnarfundi um að lögð yrði aukin áhersla á innleiðingu kynjasamþættingar og kynjaðrar fjárhagsáætlunargerðar við endurskoðun jafnréttisáætlunar í samræmi við þá vinnu sem þegar er hafin ásamt því að gerð verði nákvæm aðgerðaráætlun yfir það hvernig verkefnið skuli unnið sem skuli kynnt fyrir bæjarráði. Aðgerðaráætlunin verði tilbúin fyrir haust 2015 og stefnt að því að innleiðing verði vel á veg komin við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2017.

Í stað þess að bíða eftir að dropinn holi steininn beitum við þeim verkfærum sem til eru og vinnum verkið á þeim hraða sem við ákveðum.

-Margrét Kristín Helgadóttir

Bæjarfulltrúi og oddviti Bjartrar framtíðar á Akureyri



Nýjast