26. október, 2007 - 08:15
Fréttir
„Það er búið að draga okkur á asnaeyrunum í fjögur til fimm ár og það er ekki lengra síðan en í síðustu viku að þessi mál voru rædd við bæjarstjóra," segir Jóhannes Jónsson í Bónus um þau ummæli Sigrúnar Bjarkar Jakobsdóttur bæjarstjóra á Akureyri að ólíklegt sé að Hagkaupsverslun rísi á svæði Íþróttavallar Akureyrar og Sigrún Björk bætti við að bærinn hafi reyndar aldrei ljáð máls á slíku. Fjallað er um þetta mál í Vikudegi í gær og þar segir Jóhannes að ef Hagkaupsmenn hefðu ekki verið dregnir á asnaeyrunum í þessu máli væru þeir búnir að byggja nýja Hagkaupsverslun á öðrum stað í bænum. „Ég veit ekki hvað vakir fyrir þessu fólki og er reyndar dolfallinn yfir þessari framkomu," segir Jóhannes. Ragnar Sverrisson talsmaður Akureyri í öndvegi segir framkomu bæjaryfirvalda við Hagkaup í þessu máli smánarlega.