19. október, 2007 - 12:49
Fréttir
Karlmaður hefur í Héraðsdómi Norðurlands eystra verið dæmdur til þriggja mánaða fangselsivistar skilorðsbundið til tveggja ára fyrir tvö brot gegn valdstjórninni. Maðurinn sló lögregluþjón í andlitið í öðru tilfellinu og hafði í hótunum í hinu. Á bifreiðastæði við verslunina Strax við Hlíðarbraut á Akureyri veittist maðurinn að lögregluþjóni sem þar hafði afskipti af ákærða vegna skyldustarfa sinna, með krepptum hnefa í andlitið og lenti höggið á kinnbeini vinstra megin, með þeim afleiðingum að hann hlaut bólgur, roða og þreifieymsli yfir kinnbeini neðan við vinstra auga og væg eymsli ofan við augað. Þá var maðurinn ákærður fyrir að hafa, í lögreglubifreið á leið frá vettvangi, hótað þremur lögreglumönnum sem þar höfðu afskipti af ákærða vegna skyldustarfa sinna, og börnum þeirra og konum lífláti og var hótun ákærða til þess fallin að vekja hjá lögreglumönnunum ótta um velferð sína og fjölskyldna sinna.