„Tölurnar verða ekki svona í vor" segir Oddur Helgi

Oddur Helgi Halldórsson
Oddur Helgi Halldórsson

Oddur Helgi Halldórsson bæjarfulltrúi L-listans á Akureyri segist taka fullt mark á skoðanakönnunum, hann hefði gjarnan viljað sá hærri tölur í skoðanakönnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir Morgunblaðið. „Ég minni á að þetta eru töluvert hærri tölur hjá okkur en hálfu ári fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar, þannig að það á mikið eftir að breytast fram að kosningum í vor,“ segir Oddur Helgi.

L-listinn á Akureyri fengi 13,5 % atkvæða og einn bæjarfulltrúa kjörinn í bæjarstjórn, ef gengið yrði til bæjarstjórnarkosninga nú. L-listinn fékk 45 % atkvæða í síðustu kosningum og sex bæjarfulltrúa og er því með hreinan meirihluta í bæjarstjórn. Björt framtíð kæmi ný inn í bæjarstjórn með 16% atkvæða og tvo menn. Sjálfstæðisflokkurinn fengi mest fylgi, eða 20,7%, og þrjá menn kjörna. VG fengi 16% og tvo menn, Framsóknarflokkurinn 15,6% og tvo menn og Samfylkingin 11% og einn mann. Bæjarlistinn fengi aðeins 1,7% atkvæða, myndi missa sinn eina mann í dag. Hinir minnihlutaflokkarnir í bæjarstjórn eru núna með einn mann hver.

Koma þessar tölur þér á óvart ?

„Tölurnar ljúga ekki, en þær verða ekki svona í vor. Við teljum okkur hafa starfað vel og getum bent m.a. á fjögur atriði.

Við höfum náð að halda uppi þjónustu þrátt fyrir mikla aukningu útgjalda.

Kostnaðaráætlanir hafa staðist í framkvæmdum, sem er nýtt á Akureyri.

Bærinn er töluvert snyrtilegri og betur hirtur en undanfarin ár, t.d. slátturinn á sumrin.

Við höfum greitt niður raunskuldir það sem af er kjörtímabilinu, sennilega um meira en 1,5 milljarð.“

Ætlar þú að gefa kost á þér til áframhaldandi setu í bæjarstjórn ?

„Ég hef ekki tekið ákvörðun, reyndar er hópurinn ekki búinn að taka ákvörðun um framboð.“

Oddur Helgi segir að ekki standi yfir viðræður við Bjarta framtíð um framboðsmál á Akureyri.

 

karleskil@vikudagur.is




Nýjast