106. þáttur 12. desember 2013

Jónas Hallgrímsson

Hvað veldur að einstaka maður nær að orða hugsanir, tilfinningar og lífsreynslu betur en aðrir og getur með máli sínu brugðið upp lýsandi myndum af mannlífi, náttúru, hugsunum og tilfinningum? Vafalaust er það margt sem veldur, bæði áhugi, næmi, umhverfi og aðstæður, tíðarandi, gagnrýnin hugsun, lestur góðra bóka, ástundun, þjálfun og endurtekningar, því að æfingin skapar meistarann.

Á laugardag er Dagur íslenskrar tungu, fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, listaskáldsins góða, eins og Grímur Thomsen nefndi hann í ljóði sem birtist í Nýjum félagsritum 1846, árið eftir að Jónas dó. Ljóðinu lýkur þannig:

 

Náttúrunnar numdir mál,

numdir tungur fjalla,

svo að gastu stein og stál

í stuðla látið falla.

 

Íslands varstu óskabarn,

úr þess faðmi tekinn,

og út á lífsins eyðihjarn

örlagasvipum rekinn.

 

Langt frá þinni feðra fold,

fóstru þinna ljóða,

ertu nú lagður lágt í mold,

listaskáldið góða.

 

Þessi ummæli hlaut Jónas Hallgrímsson nýlátinn, 37 ára að aldri. Ekkert annað ljóðskáld hefur hlotið sömu hylli, enda þótt Íslendingar hafi síðan eignast mörg afburða ljóðskáld. Jónas Hallgrímsson má kallast fyrsta nútímaskáld Íslendinga því að enn lesum við ljóð hans eins og samtímaskáldskap. Ekki síst ber það vitni um virðingu og hylli, að fæðingardagur hans var gerður að sérstökum málræktardegi Íslendinga, Degi íslenskrar tungu, enda þótt allir dagar eigi að vera málræktardagar.

En hvað gerði Jónas Hallgrímssonar að því skáldi sem hann er? Grímur Thomsen svarar þessu að nokkru í ljóði sínu: hann nam mál náttúrunnar og mýkt ljóða hans var einstök; hann varð fyrir sorg og hvarf burtu af Íslandi og örlögin ráku hann út á eyðihjarn lífsins með svipum þungra örlaga.

Það sem gerði Jónas Hallgrímsson einkum að því skáldi sem hann er, var skilningur hans og tilfinning fyrir íslenskri náttúru og kveðskaparhefð sem hann ólst upp við heima og í Bessastaðaskóla, söknuðurinn við föðurmissi og missi annarra ástvina, heimþrá, tilfinninganæmi, ástarsorg og þunglyndi - bringsmalaskottan, sem hann fann snemma fyrir - svo og næmleiki hans sem víða má sjá dæmi um í ljóðum hans. Síðasta árið sem Jónas Hallgrímsson lifði orti hann smáljóð, sonnettu, sem lýsir hug hans og tilfinningum:

 

Svo rís um aldir árið hvurt um sig,

eilífðar lítið blóm í skini hreinu.

Mér er það svo sem ekki neitt í neinu,

því tíminn vill ei tengja sig við mig.

 

Eitt á eg samt, og annast vil eg þig,

hugur mín sjálfs í hjarta þoli vörðu,

er himin sér, og unir lágri jörðu,

og þykir ekki þokan voðalig.

 

Ég man þeir segja: hart á móti hörðu,

en heldur vil eg kenna til og lifa,

og þótt að nokkurt andstreymi ég bíði,

 

en liggja eins og leggur upp í vörðu,

sem lestastrákar taka þar og skrifa

og fylla, svo hann finnur ei – af níði.

 

Tryggvi Gíslason,

tryggvi.gislason@simnet.is

Nýjast