09. desember, 2007 - 13:09
Fréttir
Helsti sölumánuður hangikjöts er runninn upp og framleiðendur hafa undanfarnar vikur reykt hangikjöt í óðaönn, enda mikil sala framundan og menn vilja vera vel undir hana búnir. Gunnlaugur Eiðsson framkvæmdastjóri Kjarnafæðis segir mikilar hefðir tengdar hangikjötsneyslu landsmanna, hangikjöt tilheyri jólahaldinu og flestir borði bara hangikjöt yfir hátíðarnar. Ingvar Gíslason markaðsstjóri hjá Norðlenska gerir jafnvel ráð fyrir að sala fyrir þessi jól verði meiri en oft áður, nú séu Stóru-Brandajól, frídagar fleiri og meira um veisluhöld. „Það verður því að vanda vel til verka, fólk er fastheldið og vill góða vöru," segir Gunnlaugr. Framleiðsla á hangikjöti er ákveðin törn, segir hann og hún hefur staðið yfir liðnar vikur, „en þetta hefur unnist vel hjá okkur en salan byrjar ekki að ráði fyrr en um miðjan desember, það er vaninn." Kjarnafæði býður upp á taðreykt hangikjöt upp á gamla mátann og segir hann það mælast vel fyrir meðal viðskiptavina. Ferlið sé því langt, taki marga daga, en engu að síður verði örugglega nóg til. Gunnlaugur segir umræður liðinna ára um óhollustu saltaðra og reyktra matvæla einhver áhrif hafa á neysluna, líklega sé neysla matvæla af þessu tagi á undanhaldin. Það breyti þó ekki því að landsmenn vilji hangikjöt að minnsta kosti einu sinni yfir hátíðarnar. „Þá njóta menn þess til fulls að vera til og leyfa sér ýmislegt, svo er bara tekið á því þegar nýtt ár gengur í garð."
Ingvar markaðsstjóri hjá Norðlenska segir að þar á bæ hafi menn unnið af kappi og séu vel undirbúnir fyrir góða sölu, "við eigum nóg af kjöti." Salan fer einkum fram síðustu tvær vikur fyrir jól, en að sögn Ingvars halda menn fast í gamlar hefðir þegar kemur að jólum og jólamat, "og velja aðeins það besta á sitt veisluborð." Hann segir KEA-hangikjötið langvinsælasta og mest selda hangikjöt landsins, það er taðreykt og pækilsaltað upp á gamla mátann með nútíma framleiðsluaðferðum, "og það fellur greinilega í kramið."