Umferðarslys varð í Hörgárdal á sjötta tímanum í morgun er fólksbifreið á leið vestur fór út af veginum og valt. Í henni voru fimm ungmenni og slasaðist ökumaður talsvert og var fluttur á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Aðrir sluppu með skrámur. Bifreiðin skemmdist mikið og lagðist þak hennar að mestu saman og allar rúður brotnuðu. Allir í bifreiðinni voru í bílbelti og hefur það eflaust bjargað því að ekki fór verr. Að öðru leyti gekk umferðin óhappalaust fyrir sig en fjórir voru teknir grunaðir um ölvun við akstur.
Góð stemmning var í miðbænum á hátíðarhöldum Einnar með öllu þrátt fyrir hryssingslegt veður og skemmtu allir sér vel. Skemmtanir á öldurhúsum gengu vel og flestir sáttir og fátt um ýfingar. Unglingadansleikur í KA heimilinu gekk vel fyrir sig og unglingum til fyrirmyndar. - Mikil áhersla hefur verið lögð á eftirlit með fíkniefnum og komu sex slík mál upp þar sem menn voru teknir með lítilsháttar neysluskammta á sér.