22. nóvember, 2007 - 14:28
Fréttir
Á fundi bæjarráðs Akureyrar í morgun var tekið fyrir erindi frá Ástu Ásmundsdóttur f.h. Hestamannafélagsins Léttis þar sem óskað er eftir því að fjárveiting bæjarins til reiðhallarinnar verði hækkuð um 43 milljónir króna til að hægt verði að taka húsið í notkun. Bæjarráð samþykkti að auka styrk bæjarins vegna byggingarinnar um 30 milljónir króna með því skilyrði að Hestamannafélagið Léttir sýni fram á að það geti sjálft útvegað þá fjármuni sem á vantar til þess að hægt verði að taka húsið í notkun. Ennfremur kemur fram í bókun bæjarráðs að í samningi bæjarins og Léttis var kveðið á um að heildarstyrkveiting vegna byggingar reiðhallar yrði rúmlega 120 milljónir króna og hefur sá styrkur þegar verið greiddur. Jafnframt var skýrt kveðið á um að ekki yrði um frekari greiðslur frá bænum að ræða vegna þessarar framkvæmdar eða til rekstrar reiðhallarinnar. Þrátt fyrir þessi ákvæði er ljóst að án aðkomu bæjarins verður ekki hægt að taka húsið í notkun á næstunni. Því samþykkti bæjarráð þessa aukafjárveitingu en til þess að mæta kostnaði vegna viðbótarframlagsins verður dregið úr fé til framkvæmda í hesthúsahverfum um 10 milljónir króna á ári næstu þrjú ár.