Bæjarstjórn samþykkir stuðning við stjórnmálaflokka

Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti á fundi sínum í gær tillögu bæjarráðs um stuðning við stjórnmálaflokka og stjórnmálasamtök sem fulltrúa eiga í bæjarstjórn Akureyrar að upphæð 2 milljónir króna, sem skiptist hlutfallslega eftir kjörfylgi þeirra. Bæjarfulltrúar Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs lögðu fram tillögu um að stuðningur við stjórnmálaflokka yrði 3 milljónir króna en sú tillaga var felld. Við afgreiðslu bæjarstjórnar á fjárhagsáætlun næsta árs, lagði bæjarfulltrúi L-lista fram breytingartillögu, þar sem lagt var til að 8 milljónum króna yrði varið til að bæta laun bæjarfulltrúa, bæjarráðsmanna, svo og nefndarlaun. Þessum útgjöldum yrði mætt með lækkun á handbæru fé. Bæjarstjóri lagði fram tillögu um að vísa breytingartillögunni frá og var hún samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum frá fulltrúum meirahlutaflokkanna en fjórir fulltrúar minnihlutaflokkanna sátu hjá.

Nýjast