13. mars, 2008 - 14:53
Fréttir
Sala á hlut Akureyrarbæjar í Landsvirkjun var til umfjöllunar á fundi bæjarráðs í morgun og þar lagði Baldvin H. Sigurðsson fram
eftirfarandi bókun. "Í tilefni af 28,5 milljarða hagnaði Landsvirkjunar á síðasta ári vil ég taka fram eftirfarandi, ég vil enn og
aftur minna á að ég tel að meirihluti bæjarstjórnar Akureyrar hafi haldið afar illa á hagsmunum Akureyringa við sölu á hlut
bæjarins í Landsvirkjun. Það var ítrekað bent á að verðmatið á Landsvirkjun væri allt of lágt, sem síðan
sannaðist með sölu á hlut í Hitaveitu Suðurnesja sem var metinn á 55 milljarða, meðan Landsvirkjun var aðeins metin á tæplega 61
milljarð króna og mjög líklegt er að Landsvirkjun sé 80-90% stærra og þess vegna að sama skapi verðmætara fyrirtæki. Því
fer ég fram á að bæjarstjórn Akureyrar athugi hvort rifta megi samningnum eða fá hann endurskoðaðan."
Fulltrúar meirihlutaflokkanna í bæjarráði óskuðu bókað að þeir telji fráleitt að draga þá ályktun að
afkoma Landsvirkjunar á sl. ári sýni það að mistök hafi verið gerð í því að selja hlut Akureyrarbæjar í
Landsvirkjun. "Benda má á að fjármunatekjur umfram fjármagnsgjöld námu 27.630 milljónum króna sem skýrist aðallega af
gengishagnaði af langtímalánum og gangvirðisbreytingum afleiðusamninga. Gengishagnaðurinn og gangvirðisbreytingar eru að mestu leyti óinnleyst og
verður að hafa það í huga við mat á afkomu fyrirtækisins. "
Oddur Helgi Halldórsson lagði fram eftirfarandi bókun: "Ég var alla tíð á móti sölu á hlut Akureyrarbæjar í Landsvirkjun
og hef alla tíð haldið því fram að hann hafi verið seldur allt of ódýrt."