Aukin starfsemi Miðlunar

Miðlun ehf. hefur nú rekið samskiptaver á Akureyri í eitt ár. Nýlega flutti starfsemi félagsins í glæsilegt húsnæði við Glerárgötu 36. Í samskiptaveri Miðlunar á Akureyri starfa 10 starfsmenn á daginn við að svara í símann fyrir stór og smá fyrirtæki. Þegar Akureyringar panta miða á tónleika hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands, hringja í Elko eða panta bækur í bókaklúbbum Eddu þá svarar starfsfólk Miðlunar á Akureyri. Á kvöldin starfa yfir 40 manns við ýmiskonar úthringistörf sem felast í kynningum á vörum og þjónustu, bókunum á fundum, sölu og fleira. Að sögn Andra Árnasonar, framkvæmdastjóra viðskiptatengsla hjá Miðlun, hefur opnun starfsstöðvar á Akureyri reynst fyrirtækinu mikið gæfuspor "Starfsfólk okkar á Akureyri hefur reynst afskaplega vel. Það þjónar viðskiptavinum okkar um allt land af mikilli fagmennsku. Það er gott að vera með starfsemi á Akureyri," segir Andri Árnason. Miðlun ehf. hefur keypt allar rekstrarlegar eignir PSN Samskipta. PSN Samskipti hafa um árabil annast úthringingar og söluþjónustu fyrir viðskiptavini sína. Meðal viðskiptavina PSN Samskipta eru flest líknarfélög landsins, fjármála og fjölmiðlafyrirtæki og önnur fyrirtæki sem þurfa að vera í nánu sambandi við viðskiptavini sína með úthringingum. Starfsemi PSN verður sameinuð starfsemi Miðlunar að fullu. Starfsfólk PSN Samskipta hefur störf hjá Miðlun ehf.

Nýjast