26. febrúar, 2008 - 09:19
Fréttir
Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi og forseti bæjarstjórnar
Akureyrar, er þrátt fyrir allt bjartsýnn á að björgunarþyrla verði staðsett á Akureyri á framtíðinni. Hann segir að
ályktanir m.a. bæjarstjórna á Ísafirði og Fljótsdalshéraði, sem einnig vilji þyrlur á sína flugvelli, sé
augljóst dæmi um hvernig hrepparígurinn vinnur gegn hagsmunamálum af þessu tagi. Kristján Þór sagði að ýmsar stofnanir og
samtök hafi ályktað í þá veru að setja eigi niður björgunarþyrlu á Akureyri og reyndar hafi verið ágætis sátt um
það víðast hvar í samfélaginu.
"Þegar svo þingmenn kjördæmisins ná saman um þingsályktunartillögu þar sem skorað er á dómsmálaráðherra og
ríkisstjórn að vinna að framgangi málsins, fara sveitarstjórnir vítt og breitt um landið að álykta. Þar má nefna
bæjarstjórn Ísafjarðar og bæjarstjórn Fljótsdalshérað og allir vilja strax fá þyrlu á sinn flugvöll. Þetta er
í mínum huga augljóst dæmi um hvernig hrepparígurinn vinnur gegn hagsmunamálum af þessu tagi. Ég hélt að sveitarstjórnarmenn
í dag væru búnir að læra af reynslunni en það virðist ekki vera."
Kristján Þór sagði að þessar áherslur gerðu ekkert annað en veikja málið. "Róðurinn í þessu máli er
því miður ekkert að léttast og það er eðlilegt að dómsmálaráðherra taki ekki af skarið þegar skoðanir eru
þetta skiptar. Ég er þrátt fyrir allt ennþá bjartsýnn á að málið nái fram að ganga. Menn verða þó
að hafa í huga að áður en til þess getur komið þurfa áætlanir um endurnýjun þyrluflotans og uppbyggingu hans að hafa gengið
eftir. Þeirri endurnýjun og viðbót lýkur ekki fyrr en á árinu 2011 eða 2012. Ég vona að hægt verði að vinna þannig
að málinu að eftir þann tíma verði hægt að setja niður björgunarþyrlu á Akureyri."