12. desember, 2007 - 13:30
Fréttir
Umræða um presta og heimsóknir þeirra í leik- og grunnskóla landsins hefur verið hávær undanfarna daga og hefur að sumu leyti komið Svavari A. Jónssyni sóknarpresti í Akureyrarkirkju á óvart. Hann hefur tvívegis undanfarna daga fjallað um málið á bloggsíðu sinni og fengið geysileg viðbrögð, vel yfir 100 athugasemdir hafa verið skráðar við umfjöllun hans um efnið. Svavar segir presta á Akureyri lítið vera ágenga við skóla á öllum stigum. Hann segir að leikskólabörnum gefi þeir aðventudagatal í upphafi aðventu en að öllu jöfnu komi þeir ekki í skóla bæjarins nema við sérstakar aðstæður og þeir þá kallaðir til af skólayfirvöldum. „Ég finn það samt þegar við komum að mér finnst örla á óöryggi hjá kennurum, þeim finnst þetta erfitt og hafa eflaust áhyggjur af því að misbjóða einhverjum," segir Svavar. Akureyrarkirkja hyggst efna til málþings í mars á næsta ári þar sem fjallað verður um kirkju og skóla og er þegar farið að leita til hugsanlegra fyrirlesara um þátttöku. „Umræðan nú er svolítið skrýtin á köflum, það er látið að því liggja að prestar landsins reyni hvað þeir geti að komast inn í skólana í þeim tilgangi einum að stunda trúboð, að snúa börnum til kristinnar trúar. Þetta er atvinnurógur og beinist ekki bara að okkur prestum, heldur líka kennurum," segir Svavar og bendir á að í þeim tilvikum sem Akureyrarprestar séu kallaði inn í skólana sé faglega að heimsókninni staðið. Þykir honum ekki sæmandi að fjalla um málið með þeim hætti sem gert hefur verið, þ.e. að prestar stundi trúboð í miklum móð í skólaheimsóknum sínum. Það sé villandi málflutningur og beinist ekki síður að kennurum, sem vændir eru um að láta slíkt viðgangast. Þá telur Svavar að í allri umræðunni hafi gleymst að skilgreina hvað trúboð er.
Svavar bendir á að skólarnir beri ábyrgð á skólastarfinu og hann treysti skólafólki fullkomlega til að hafa stjórn á sínu starfi, sem og að leysa þau ágreiningsefni sem upp kunna að koma t.d. í tengslum við jólahald og annað slíkt sem einhverjir taki ekki þátt í. „Mér þykir sjálfgefið að skólar hafi samvinnu við aðrar stofnanir samfélagsins sem þeir telja að geti orðið börnunum til heilla, en það starf og samvinna á að fara fram á forsendum skólans," segir Svavar. „Samvinna kirkju og skóla er hreint ekki ný af nálinni. Sumum finnst að efla þurfi samstarfið, aðrir vilja draga úr því en allir geta held ég verið sammála um að gagnlegt sé að ræða það."