Athugasemd vegna fréttatilkynningar frá formanni skólanefndar Akureyrarbæjar

Hlynur Hallsson varamaður VG í skólanefnd Akureyrarbæjar hefur sent frá sér athugasemd vegna fréttatilkynningar frá formanni skólanefndar, Elínu Margréti Hallgrímsdóttur. Athugasemd Hlyns er svohljóðandi: "Formaður skólanefndar Akureyrarbæjar sendi nýverið fréttatilkynningu sem rétt er að staldra við. Tilefnið hennar var bókun undirritaðs á fundi skólanefndar mánudaginn 5. maí sl. um aukinn kostnað við einkarekstur leikskólans Hólmasólar. Fréttatilkynning hennar birtist í Morgunblaðinu fimmtudaginn 8. maí undir fyrirsögninni "Segir Hlyn fara með rangt mál." Í henni fullyrðir formaðurinn að undirritaður fari með rangt mál um að einkarekstur Hólmasólar sé dýrari en opinberu leikskólanna. Staðreyndin er hinsvegar sú og það veit formaður skólanefndar Akureyrarbæjar mætavel að Akureyrabær greiðir hærri upphæð með hverju barni á einkarekna leikskólanum Hólmasól en fyrir hvert barn á opinberum leikskólum Akureyrarbæjar. Að vísu er það svo að rekstraraðili leikskólans Hólamsólar á að sjá um sálfræðiþjónustu í stað þess að samnýta slíka þjónustu með öðrum leikskólum á Akureyri. Slíkt getur falið í sér auka kostnað fyrir leikskólann. En þetta er algjört aukaatriði þegar horft er til þess að samningurinn við rekstraraðila Hólmasólar er vísitölubundinn en rekstur annarra leikskóla þarf að halda sig við fjárhagsáætlun með fastri upphæð án vísitölubindingar. Það er því fyrirséð að kostnaður vegna samnings bæjarins við leikskólann muni hækka á næstu mánuðum enda mælist verðbólga um 12%. Leikskólar á Akureyri sitja því ekki við sama borð. Ekki verður heldur séð að Hólmasól sé að einhverju leyti hagkvæmari rekstrareining en opinberu leikskólarnir eins og talsmenn einkavæðingar þreytast ekki á að reyna telja fólki trú um.

Foreldrar barna við Hólmasól borga nú verulegar upphæðir fyrir þjónustu sem er innifalin í leikskólagjaldi foreldra annarra leikskóla á Akureyri eins og sérstakt netgjald. Eins eru foreldrar rukkaðir fyrir hvert byrjað korter sem börnin eru umfram umsaminn vistunartíma. Eftir stendur að leikskólinn Hólmasól er kostnaðarsamari fyrir Akureyrarbæ og foreldra.

Í niðurlagi fréttatilkynningar formanns skólanefndar er eftirfarandi fullyrðing: "Hlynur segir fjölbreytt skólastarf mikilvægt en einungis skuli treysta opinberum aðilum fyrir því." Þetta er ekki rétt enda styð ég foreldrarekna leikskóla og hef góða reynslu af starfsemi þeirra. Einkarekinn leikskóli í hagnaðarskyni er hinsvegar að mínu mati afleit lausn. Ítrekað skal hér að gagnrýni mín beinist að einkarekstrarstefnu Sjálfstæðisflokksins en ekki að hugmyndafræði Hjallastefnunnar."

Nýjast