Andri Fannar á leið til Reading til reynslu

Andri Fannar Stefánsson, ungur knattspyrnumaður úr KA, er á leið til enska úrvalsdeildarliðsins Reading til reynslu. Andri Fannar, sem fæddur er 1991 og leikur yfirleitt á miðjunni hjá KA, mun dveljast hjá Reading í viku eða nánar tiltekið dagana 15.-21. mars nk.

„Njósnarar” Reading sáu Andra Fannar á Norðurlandamótinu með U17 ára landsliði Íslands sl. sumar og svo fylgdust þeir aftur með honum í Serbíu í undankeppni EM með U17 í byrjun október. Í framhaldi af því buðu þeir honum að koma til reynslu nú. Hjá Reading eru hvorki fleiri né færri en fjórir íslenskir leikmenn, Ívar Ingimarsson og Brynjar Björn Gunnarsson, ásamt tveimur ungum leikmönnum þeim Gylfa Sigurðssyni og Viktori Unnari Illugasyni.

Talið er að ef Andra Fannari gengur vel hjá liðinu munu þeir í framhaldi af því bjóða honum aftur út til reynslu og ef allt gengur að óskum gæti svo farið að félagið semji við hann.

Nýjast