Alþjóðastofa sem sérstök eining verður lögð niður

Akureyri
Akureyri

Alþjóðastofa sem hefur verið starfandi á Akureyri frá upphafi ársins 2002 verður lögð niður sem sértök eining í stjórnkerfi Akureyrarbæjar.  Þetta er tillaga velferðarráðs og hefur meirihluti bæjarráðs tekið undir hana. Með aukinni upplýsingatækni hafa aðrar stofnanir að einhverju leyti tekið við hlutverki Alþjóðastofu. Sú þjónusta sem út af stendur fellur vel að verkefnum annarra stofnana bæjarins

Tilgangur Alþjóðastofu  Akureyrar var að vinna að málefnum nýbúa og útlendinga, vera málsvari þeirra og stuðla að aðlögum þeirra. Hún hefur í tímans ráðs tilheyrt hinum ýmsu sviðum bæjarins. Um áramótin 2019/2020 var tekin sú ákvörðun að Alþjóðastofa skyldi renna inn í félagsþjónustu Akureyrarbæjar enda meginverkefni hennar þá að veita aðstoð og upplýsingar er voru að miklu þau sömu og veitt eru hjá félagsþjónustunni og því stundum um tvíverknað að ræða.

Miklar breytingar hafa orðið undanfarna tvo áratugi m.a. hvað varðar miðlun efnis og upplýsingar flestar aðgengilegar á netinu auk þess sem Jafnréttisstofu hefur tekið að sér að útbúa upplýsingar fyrir fólk sem nýlega er flutt til landsins.

Nafnið er villandi

Tveir ráðgjafar hafa starfað hjá Alþjóðastofu frá því hún flutti á Velferðarsviði, annar í 50% stöðu og hinn í tímavinnu. Stofan var í samstarfsverkefni með öðrum löndum sem fengist hafði styrkur fyrir, en því er nú lokið og því mat starfsmanna velferðarsviðs að leggja eigi Alþjóðastofu niður sem sér einingu. Rökin eru m.a. þau að nafnið sé villandi og gefi til kynna mun umfangsmeira hlutverk en hún sinni. Þá falla verkefni sem stofan sinnti vel að öðru verkefnum sem sviðið sinnir. Að auki sinni þjónustuver almennri upplýsingagjöf til bæjarbúa.

Áhyggjur af að þjónusta skerðist

Þrír fulltrúar í bæjarráði, Hilda Jana Gísladóttir, S-lista, Sunna Hlín Jóhannesdóttir, B-lista og Jana Salóme I. Jósepsdóttir, V-lista lögðu fram bókun á fundi þar sem fjallað var um málið, en í henni kemur fram að þær hafi áhyggjur af því að þjónusta við fólk af erlendum uppruna muni skerðast með þessari ákvörðun, sé samhliða ekki tekin ákvörðun um aukið vægi fjölmenningarmála á öðru sviði sveitarfélagsins. „Eðlilegast væri að taka ekki aðeins þá ákvörðun að leggja niður 50% stöðugildi á velferðarsviði, heldur að umrætt stöðugildi myndi færast yfir á mannauðssviði sem ber ábyrgð á innleiðingu og eftirfylgni mannréttindastefnu Akureyrarbæjar,“ segir í bókun þeirra.


Athugasemdir

Nýjast