10. apríl, 2008 - 15:16
Fréttir
Í ár eru 50 ár liðin frá stofnun körfuknattleiksdeildar innan Íþróttafélagsins Þórs og af því tilefni mun
deildin standa fyrir tónleikum í Glerárkirkju sunnudaginn 20. apríl.
Á tónleikunum, sem hefjast kl. 16.00, munu Álftagerðisbræður ásamt Konnurunum koma fram og skemmta fólki með söng eins og þeim einum er
lagið. Álftagerðisbræður eru þeir Sigfús, Gísli, Óskar og Pétur Péturssynir og undirleikari þeirra er Stefán R.
Gíslason. Konnararnir eru Jóhann Már og Svavar Hákon Jóhannssynir og bræðurnir Örn Viðar og Stefán Birgissynir, undirleikari þeirra
verður Helga Bryndís Magnúsdóttir. Þessir hópar munu syngja hvor í sínu lagi og svo saman í lokin. Sætaframboð er takmarkað
svo það er um að gera fyrir fólk að tryggja sér miða í tíma. Forsala miða hefst á morgun, föstudag 11. apríl og verður
í Pennanum/Eymundsson og Hamri félagsheimili Þórs. Miðaverð er 2.500 krónur.
Stjórn Íþróttafélagsins Þórs ákvað á fundi í byrjun febrúar 1958 að stofna körfuboltadeild innan
félagsins og var fyrsti fundur hennar haldinn 9. febrúar. Fyrsti formaður deildarinnar var Páll Stefánsson.