Akureyri tapaði gegn Val

Akureyri tapaði í kvöld fyrir Val í N1 deild karla í handbolta 30-26, leikurinn fór fram í Vodafonehöll þeirra Valsmanna. Leikur Akureyrar var þrátt fyrir tapið langt frá því að vera slakur og í raun sáust mikil batamerki á leik liðsins frá fyrri leikjum. Akureyri var inni í leiknum allt til loka en voru samt alltaf 2-4 mörkum á eftir Völsurum og náðu aldrei að komast að fullu inn í leikinn.

Staðan í hálfleik var 15-13 fyrir Val og raunar urðu nákvæmlega sömu tölur uppi á teningnum í seinni hálfleik því að þá skoraði Valur 15 mörk og Akureyri 13, lokatölur 30-26. Í síðari hálfleik átti Akureyri nokkra sénsa til að minnka mun Valsara niður í eitt mark en fóru illa að ráði sínu í að minnsta kosti þrjú skipti og Valur náði alltaf að auka forystu sína í þrjú mörk í stað þess að Akureyri minnkaði hana í eitt. Það má því segja að Akureyringar hafi verið sjálfum sér verstir eins og stundum áður í vetur en liðið hefur nú tapað fjórum leikjum í röð.

Þeir Magnús Stefánsson og Heiðar Aðalsteinsson áttu fínan leik hjá Akureyri sem og Jónatan Magnússon sem stjórnaði leik liðsins vel en hefði mátt vera áræðnari að sækja að markinu. Þá áttu þeir Hörður Fannar Sigþórsson og Einar Logi Friðjónsson ágætis spretti í leiknum og virðast vera að ná sér á strik.


Nánar verður sagt frá leiknum í Vikudegi á morgun.

Nýjast