Loksins, loksins, hafa örugglega margir Akureyringar hugsað þegar Akureyri Handboltafélag vann sinn fyrsta alvöru heimasigur í vetur með því að leggja Stjörnuna í æsispennandi leik í KA-heimilinu rétt í þessu.
Akureyrarliðið var sterkara í fyrri hálfleik og hafði 19-16 forystu eftir hann. Sóknarleikur liðsins gekk mjög vel og munaði þar mestu um að liðið keyrði alltaf hraðar miðjur í kjölfar þess að hafa fengið á sig mark, virkaði það vel gegn hálf sofandi Stjörnuliðinu. Varnarleikurinn var hins vegar ekki nógu sterkur en þrátt fyrir það varði Sveinbjörn Pétursson ágætlega í markinu.
Seinni hálfleikur var óþarflega spennandi og miðað við spilamennsku liðanna hefði Akureyri átt að klára hann auðveldlega, þeir gerðu sér óþarflega erfitt fyrir með slökum leikkafla undir lok leiksins. Þegar um 10 mínútur voru til leiksloka hafði Akureyri fimm marka forystu en þá kom slæmur kafli og Stjarnan skoraði fjögur mörk í röð áður en Magnús Stefánsson kom Akureyri í 30-28 og um fimm mínútur til leiksloka.Margt gekk á, á þessum fimm mínútum og bar þar hæst að fyrrum KA-mennirnir Heimir Örn Árnason og Patrekur Jóhannesson fengu tveggja mínútna brottvísanir fyrir kjaftbrúk við annars góða dómara leiksins. Þessar brottvísanir nánast tryggðu Akureyri sigur því að Stjarnan átti mjög erfitt uppdráttar með færri menn inni á vellinum. Smá skrekkur kom í menn í lokin þegar Stjarnan minnkaði muninn í tvö mörk einni mínútu fyrir leikslok í kjölfar óskynsamlegar spilamennsku hjá Akureyri. Það kom þó ekki að sök því brottvísun Patreks kom akkúrat á þessum tímapunkti og það drap vonir Stjörnunnar um stig í leiknum. Lokatölur 34-32.
Hjá heimamönnum átti hinn 17 ára gamli Oddur Gretarsson stórleik og skoraði sex mörk úr vinstra horninu. Einnig spilaði Magnús Stefánsson vel í sókninni og þá sérstaklega í síðari hálfeik. Varnarleikur liðsins var köflóttur en Jónatan Magnússon var sterkur þar.
Með sigrinum nánast gulltryggði Akureyri sæti sitt í deildinni og er með 14 stig í 6. sæti, fimm stigum á undan Aftureldingu sem er í 7. sætinu.
Mörk Akureyrar: Magnús Stefánsson 8, Oddur Gretarsson 6, Goran Gusic 5, Einar Logi Friðjónsson 4, Jónatan Magnússon 4, Hörður Fannar Sigþórsson 3, Ásbjörn Friðriksson 2 og Þorvaldur Þorvaldsson 2. Sveinbjörn Pétursson varði 21 skot.