Akureyringar mættu gríðarlega ákveðnir til leiks og virtust í byrjun ætla að fara létt með gesti sína úr Mosfellsbænum. 3-2-1 vörn Akureyrar gekk mjög vel en í sókninni voru þeir klaufar að nýta sér ekki betur þau dauðafæri sem þeir fengu hvað eftir annað.
Þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður var staðan 5-2 fyrir Akureyri en næstu mínútur fór að halla undan fæti hjá liðinu. Afturelding jafnaði 6-6 fljótlega og það sem eftir var hálfleiksins var jafnræði með liðunum. Akueyrir hafði þó forskot 13-12 þegar flautað var til leikhlés, þrátt fyrir að ýmsar aðvörunarbjöllur væru farnar að klingja hjá liðinu, þá sérstaklega í vörninni.
Síðari hálfleikur var mjög jafn allan tímann og var munurinn á milli liðanna aldrei meira en 2-3 mörk. Akureyri gekk mjög illa að loka varnarleiknum og voru þeir Sveinbjörn Pétursson og Hörður Flóki Ólafsson ekki öfundsverðir af sínu hlutverki í markinu hjá Akureyri.
Sóknarleikurinn snérist nær algjörlga um einstaklingsframtak Magnúsar Stefánssonar en einnig áttu þeir Goran Gusic og Einar Logi Friðjónsson ágætis spretti.
Undir lokin hafði Akureyri nokkur gullin tækifæri til að klára leikinn en alltaf klúðruðu þeir þeim með fljótfærni eða klaufaskap. Útlitið var svo ekki bjart þegar að Afturelding hafði eins marks forystu og voru einum fleiri þegar um ein mínúta var til leiksloka. Glæsilegt sirkusmark Magnúsar Stefánssonar í lokin bjargaði hins vegar stigi fyrir Akureyri og lokatölur 26-26.
Mörk Akureyrar: Magnús 9, Goran 5, Einar Logi 4, Andri Snær 3, Heiðar 2, Jónatan 2, Hörður 1.