Áhrifaríkasta hálkuvörnin er óblandað salt

Áhrifaríkasta hálkuvörnin á götum bæjarins er að nota eintómt salt. Þetta segir Guðmundur Hjálmarsson verktaki, eigandi verktakafyrirtækisins G. Hjálmarssonar. Sjálfur notaði hann eigin bíl á dögunum til að saltbera kafla á Þórunnarstræti, en hann er með verkefni við sundlaugina og umferð gangandi og akandi vegfarenda er mikil. Hann segir viðbrögðin neikvæð, „það varð allt vitlaust." Guðmundur segir að við vissar kringumstæður líkt og var á Akureyri fyrir nokkru, þar sem mikil ísing og hálka var á götum bæjarins, sé langbest að nota óblandað salt á hættumestu göturnar. Það sé kröftug leið til að losna við hálkuna, sandurinn sem hefð ef fyrir að bera á götur til hálkuvarna sé ekki líkt því eins áhrifaríkur auk þess sem erfitt sé að hreinsa hann upp og í froststillum valdi hann því að svifryk eykst til muna þegar bílar þeyta honum upp. Saltið aftur á móti hreinsist burt í næstu rigningu og fari sína leið. „Ég held að fólk sé óþarflega viðkvæmt fyrir þessu. Aðstæður eins og voru hér í bænum um daginn skapast ekki nema örfáa daga á ári þannig að það er ekki verið að tala um mikið magn. Það er ekki eins og verið sé að dreifa áburði á tún. Fólk sem er að amast við þessu horfir ekki á heildarmyndina, það skapast mikil hætta í umferðinni í hálkunni og iðulega verða árekstrar og tjón. Fyrst og fremst held ég að þetta séu fordómar í fólki og það er erfitt við þá að eiga," segir Guðmundur.

Hann kveðst hafa óskað eftir því að leiðin sem bílar hans aka um við sundlaugarsvæðið yrði hálkuvarin, en þegar ekkert gerðist hafi hann gripið til þess ráðs að dreifa sjálfur salti á eigin bíl um svæðið. Viðbrögðin létu ekki á sér standa segir hann. „Það varð eitthvað að gera, umferðin er mikil, þarna fara skólabörn mikið um auk bílaumferðar og mér þykir forgangsröðunin einkennileg ef allt verður vitlaust út af örlitlu salti á litlum bletti en ekki horft á þá hættu sem skapast getur fyrir skólabörn sem þarna eru á ferðinni."

Nýjast