06. janúar, 2008 - 13:43
Fréttir
Skíðasvæðið í Hlíðarfjalli á Akureyri er opið í dag á milli klukkan 10 og 17 og þar er nú töluvert af
fólki, að sögn Guðmundar Karls Jónssonar forstöðumanns Skíðastaða. Skíðasvæðið var fyrst opnað á nýju
ári sl. föstudag og var þar einnig opið í gær. Alls komu um 3000 manns á skíði þá 10 daga sem opið var í
síðasta mánuði en skíðasvæðið var fyrst opnað á þessum vetri 6. desember sl. "Við kvörtum ekki yfir þeirri
aðsókn," sagði Guðmundur Karl.
Það hefur snjóað lítillega síðan í gær og því er gott skíðafæri í þeim fjórum
skíðaleiðum sem eru opnar. Guðmundur Karl sagði að nú snjóaði af krafti í Hlíðarfjalli, gert sé ráð fyrir
kólnandi veðri og því verði einnig hægt að fara framleiða meiri snjó. "Það er ekkert nýtt að það snjói í
janúar, það er allur veturinn eftir og ég hef þá trú að þetta eigi eftir að verða mjög gott," sagði Guðmundur Karl.