Ágæta bæjarstjórn og aðrir sem málið varðar!

Arngrímur Jóhannsson skrifar og kvartar m.a. yfir að ekki sé almenningsklósett í miðbæ Akureyrar.
Arngrímur Jóhannsson skrifar og kvartar m.a. yfir að ekki sé almenningsklósett í miðbæ Akureyrar.

Heimkominn á ný eftir mörg ár í hópi burtfluttra, hef ég í nokkur ár búið í  hjarta bæjarins, nærri æskustöðvunum, og uni glaður við mitt. Bærinn fallegi við fjörðinn tók vel á móti mér. Á honum eru þó nokkrir  blettir, sem mig langar að benda á, í fullri vinsemd.

Í fyrsta lagi eru það typpin í miðbænum; málmstaurar sem standa upp úr steinilögðum strætum við Ráðhústorgið. ftir að hafa talið, þó ekki nákvæmlega, sýnist mér að um 30 rispur séu á hverju typpi að meðaltali. Gera má  ráð fyrir að viðgerðarkostnaður vegna skemmda á bílum sem ekið hafa á eða nuddast utan í typpin sé um  85 milljónir. Vissulega búbót fyrir bílaverkstæði bæjarins, en óþarfa fjárútlát fyrir bíleigendur. 17. júní s.l . sá ég unga konu á Toyta Landcruiser jeppa, hún stöðvaði og ræddi við vini sína með hvíta kolla. Þegar einhver óþolinmaður flautaði mjakaði hún bílnum af stað en beygði í öfuga átt, reif gangbrettið af bílnum og stórsá á hliðinni.  Þegar ég bakkaði pallbílnum mínum á eitt typpið kostaði 150 þúsund að gera við hann.

Ef endilega verða að vera einhvers konar hindranir legg ég til að þær verði úr plasti eða þá lágir hnúðar. Steinkúlurnar í Hafnarstræti eru til allrar guðs lukku farnar. Þær höfðu kostað margar beyglur. Ráðhústorg stendur autt en þakka ber grasreit sem þar hefur verið komið fyrir yfir sumarið síðustu ár. Upplagt þætti mér að hverfa til fyrra horfs, með grasflöt og leyfa akstur hringinn í kringum torgið og parkeringar; leyfa svæðinu að njóta sín en loka að sjálfsögðu 17. júní.

Mér varð á í eitt skipti að leggja sunnan við Landsbankavegginn og var sektaður fyrir. Átti samtal við vörðinn sem sektaði og spurði hann hvers vegna ég mætti ekki leggja þarna. Hvar það væri gefið til kynna. Það er skilti við Eymundsson, sagði hann.  Ég borgaði, enda maðurinn hinn vinsamlegasti.

Annað er að bryggjusporðurinn við Torfunef er að hrynja. Bæjarbúar sjá það alla jafna ekki en sporðurinn fer ekki framhjá gestum á hvalaskoðunarbátum og öðrum sem koma siglandi. Ég hef dundað mér svolítið á Pollinum og þykir þetta miður. Þetta stingur í stúf í fallegum bæ.

Stundum fer ég með börn og barnabörn í Fjallið því það jafnast á við  Paradís, að ég held.  Ég bý í blokk þar sem töluvert er um orlofsíbúðir og hitti oft fólk sem ráfar um og veit varla hvað það getur gert með börnum sínum síðdegis um helgar. Skíðasvæðinu  er lokað um miðjan dag. Það er óskiljanlegt. Hvað veldur? Er ekki hægt að leyfa fólki að renna sér a.m.k. fram að kvöldmat?
 
Mér skilst að til standi að byggja blokkir neðan við Lón en vona að af því verði ekki. Það slys varð í Hafnarfirði að stórhýsi voru reist þannig að gömlu, fallegu húsin eru í felum. Mér finnst óþarfi að standa fyrir slíku slysi hér í bæ. 

Metinn maður úr Reykjavík spurði á Facebook síðu sinni í vetur: Hvað eru Akureyringar að pæla? Sagði bílinn hafa algjöran forgang hér í bæ og talaði m.a. um Glerárgötuna sem fjögurra akreina hraðbraut. Ekki var hægt að skilja hann öðruvísi en best væri að mjókka götuna!  Bærinn er núna ágætlega greiðfær og ég held að heimamenn ráði við þessi mál sjálfir.

Síðast en ekki síst: Nú orðið felst líkamsrækt mín í því að ég geng gjarnan upp kirkjutröppurnar á kvöldin og banka uppá hjá almættinu, sem er reyndar sjaldnast við. En þegar niður er komið aftur verður mér stundum mál og þá er ekki í mörg hús að venda. Ef það er um helgi get ég komið við hjá Simma á Götubarnum, en það er dónaskapur að fara inn á svoleiðis stað og spyrja hvort maður geti fengið að nota salernisaðstöðu . Þess vegna þarf ég að fá mér einn bjór í leiðinni og er þá fljótlega kominn í vandræði aftur. Það er ótrúlegt að ekki skuli vera almenningsklósett í miðbænum.

Skotið við innganginn í húsið mitt nota menn gjarnan um helgar til þeirra þarfa og skila jafnvel úr efri endanum líka. Skotið er oft óhugnanlegt að morgni laugardags og sunnudags en ég dáist að hreinsunarmönnum  bæjarins.

Að endingu er rétt að taka fram að á Akureyri vil ég vera og hvergi annars staðar.

-Arngrímur Jóhannsson

Nýjast