Ágæt þátttaka í Lýðræðisdeginum á Akureyri

Nokkuð góð þátttaka var í Lýðræðisdeginum á Akureyri sem fram fór í Brekkuskóla í dag, þótt vissulega hefðu mátt vera fleiri þátttakendur í einstaka málstofum. Á Lýðræðisdeginum var velt upp fjölmörgum spurningum og miðaðist uppsetning þingsins við það að þátttaka almennings yrði sem mest. Markmiðið var að fá fram hvernig bæjarbúar sjái fyrir sér Akureyri í framtíðinni og hvernig þeir ætla að búa saman í framtíðinni. Frummælendur úr hópi bæjarbúa hófu leikinn upp úr hádegi en að því loknu fóru fram umræður og unnið að tillögugerð. Allar tillögur voru skráðar niður og verða birtar í Vikudegi í lok mánaðarins. Nokkrar málstofur voru starfandi, Ágúst Þór Árnason hafði framsögu um íbúalýðræði, Pétur Halldórsson um mengun, umferð og lýðheilsu, Guðmundur Haukur Sigurðsson um göngu- og hjólreiðastíga, Matthildur Elmarsdóttir um lýðheilsu og skipulag, Hólmkell Hreinsson um hæglætisbæinn eða heimsborgarabraginn, Stella Árnadóttir fjallaði um vistvernd í verki, Sigrún Sveinbjörnsdóttir ræddi um hvernig er að eldast á Akureyri og Jan Eric Jessen ræddi um fjölskylduvænt samfélag. Eftir að vinnu í málstofum lauk fóru þátttakendur út á skólalóð Brekkuskóla, gengu þar í hringi, heilsuðust og kynntu sig með nafni fyrir næsta manni. Að síðustu var svo myndaður stór hringur með þátttakendum og hrópað ferfalt húrra fyrir Akureyri.

Nýjast