Æfingabúðirnar stóðu til boða þeim 60 iðkendum SA sem farnir eru að keppa á skautum, þannig að þátttakan er framar væntingum en búðirnar eru alla virka daga frá kl. 9-15 auk nokkurra daga um helgi. Erlendu þjálfararnir eru þær Margret O´Nell frá Bretlandi og Iveta Reitmayerova frá Slóvakíu. Báðar eru þær mikils metnir þjálfarar og er deildin mjög heppin að fá þær, segir í fréttatilkynningu. Iðkendur muni fá góða þjálfun, auk þess sem þjálfarar deildarinnar fá betri innsýn í heim þjálfunar. Margret er m.a. fyrrum þjálfari Jennu McCorkel, sem er einn besti skautari Breta í dag. Iveta þjálfar m.a. dóttur sína og fór með hana á síðasta heimsmeistaramót, en dóttir hennar kemur með hingað til lands. Auk þjálfunar á ís, eru þær í þrekþjálfun og ballett, sem er í höndum þjálfara frá Bjargi og Point dansstúdíói. Að auki fá iðkendur ýmis konar fræðslu.
Samhliða æfingabúðum, hefst í dag skautaskóli fyrir börn fædd 2004. Síðar verður einnig skautanámskeið, fyrir yngri iðkendur sem ekki eru byrjaðir að keppa í íþróttinni. Á tímabilinu verður einnig skautadiskó og opinn tími fyrir almenning. Það má því segja að þetta sumarskautafjör geti náð til um 200 barna með skautaáhuga á einhverju stigi, auk þess sem búðir sem þessar eru gríðarlega mikilvægar fyrir uppbyggingu deildarinnar, segir ennfremur í fréttatilkynningunni.