28. september, 2007 - 10:11
Fréttir
Bæjarráð Akureyrar ræddi á fundi sínum í gær mótvægisaðgerðir ríkisstjórnar Íslands vegna niðurskurðar aflaheimilda. B
æjarráð lýsti ánægju sinni með að flýting lengingar Akureyrarflugvallar og endurnýjunar á aðflugsbúnaði vallarins skuli vera hluti af mótvægisaðgerðunum. Þessi ákvörðun muni gagnast jafnt einstaklingum sem fyrirtækjum á Norðurlandi. Niðurstaða umræðu bæjarráðs var engu að síður sú að boðaðar aðgerðir dugi engan veginn til þess að vega upp þau neikvæðu áhrif sem þessi ákvörðun mun hafa á Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu. Bæjarráð skorar á ríkisstjórnina að leita áfram leiða til þess að koma til móts við einstaklinga, fyrirtæki og sveitarfélög sem verst verða úti vegna niðurskurðarins. Í aðgerðum ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að ýmsar stofnanir sem nú þegar sinna atvinnu- og menntunarmálum stofni til verkefna til að draga úr áhrifum niðurskurðarins. Bæjarráð lýsir yfir vilja til að taka þátt í þessari vinnu og mun núna í október boða til samráðsfundar stofnana á Akureyri sem möguleika eiga á að nýta sér þetta.