Aðeins eitt tilboð í malbikun Akureyrarflugvallar

Aðeins eitt tilboð barst í malbikun Akureyrarflugvallar en það var opnað í morgun. Hlaðbær - Colas í Hafnarfirði býðst til að vinna verkið fyrir rúmar 719 milljónir króna, eða um 111% af kostnaðaráætlun, sem var rúmar 647 milljónir króna. Magnús Sigurgeirsson hjá Ríkiskaupum sagði að farið yrði yfir tilboðið og kostnaðaráætlunina á næstu dögum. Eftir lengingu verður flugbrautin 2,7 km að lengd. Samkvæmt útboðinu verður eldri flugbraut afrétt með flatarfræsingu og malbiki áður en yfirborðslag verður lagt. Á nýja hluta flugbrautar verða lögð tvö malbikslög, nema á axlir þar sem einungis verður lagt yfirborðslag. Þá skal verktaki koma sér upp malbikunarstöð, afla starfsleyfis og leggja til allt efni til verksins.

Nýjast