80 ár frá stofnun mjólkursamlags á Akureyri

Í dag eru liðin 80 ár síðan Mjólkursamlag KEA var stofnað á Akureyri. Starfsemin hófst þó ekki fyrr en fáeinum mánuðum síðar, eða 6. mars 1928 og var þá samlagið til húsa neðst í Grófargili á Akureyri. Allar götur síðan hefur verið rík hefð fyrir mjólkurvinnslu á Akureyri, bæði pökkun á ferskmjólk og vinnslu á fjölbreyttum mjólkurvörum. Mjólkursamlag var rekið undir merkjum Kaupfélags Eyfirðinga allt til ársins 2000 þegar nafni fyrirtækisins var breytt í Norðurmjólk með samruna við mjólkursamlagið á Húsavík. Um síðastliðin áramót sameinaðist mjólkursamlagið inn í Mjólkursamsöluna sem er rekstrarfélag mjólkuriðnaðarins á Íslandi og í eigu rúmlega 700 kúabænda um land allt. Hjá MS Akureyri starfa nú um 70 manns og í tilefni dagsins var í dag efnt til sérstaks hádegisverðar með starfsfólki MS Akureyri og færði fyrirtækið öllum starfsmönnum gjöf í tilefni dagsins. Mjólkurvinnsla KEA hófst í því húsi í Grófargili sem nýverið var gert upp fyrir veitingastaðinn Friðrik V á Akureyri en nýtt hús var byggt yfir starfsemina ofar í Gilinu og tekið í notkun árið 1939. Í kjölfarið fylgdi aukin fjölbreytni í vinnslu afurða, sér í lagi á ostum sem alla tíð hafa verið flaggskip í mjólkurvinnslu á Akureyri. Ný og fullkomin mjólkurstöð var tekin í notkun árið 1980 á Lundstúni við Súluveg þar sem hún er enn þann dag í dag. Nýja stöðin jók enn möguleika mjólkursamlagsins til aukinnar fjölbreytni mjólkurafurða en auk mjólkurvinnslu var um tíma pakkað vatni í húsnæði mjólkursamlagsins, sem og ávaxtasafa. Smjörlíkisgerð var einnig í stöðinni á tímabili. Sigurður R. Friðjónsson, mjólkurbússtjóri MS Akureyri, segir tekið við mjólk frá 171 mjólkurframleiðanda á Eyjafjarðarsvæðinu og í Þingeyjarsýslum hjá fyrirtækinu. Og í ár stefnir í að met verði slegið í innveginni mjólk á Akureyri.

Nýjast