3G þjónusta Símans tekin í notkun á Akureyri

Síminn hefur tekið þriðju kynslóðar farsímakerfi (3G) í notkun á Akureyri og býðst öllum viðskiptavinum fyrirtækisins sem eiga 3G-farsíma að nýta sér kosti þjónustunnar. Meðal helstu nýjunga eru myndsímtöl, þar sem viðmælendur sjá hvor annan meðan á samtali stendur, móttaka sjónvarpsútsendinga, msn netspjall og streymi myndefnis og tónlistar í farsímann. 3G-þjónustuna má jafnframt nota til að nettengja fartölvur með meiri gagnahraða en áður hefur verið í boði.

Það var Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans, sem tók 3G kerfið formlega í notkun í dag. Sævar Freyr afhenti við það tækifæri Sigrúnu Jakobsdóttur bæjarstjóra Akureyrarbæjar 3G netkort í fartölvu til að hún upplifi af eigin raun þau þægindi og frelsi sem 3G þráðlaus nettenging getur haft í för með sér í annasömu starfi bæjarstjórans. "Það er mér mikið ánægjuefni að opna fyrir 3G þjónustu Símans hérna á Akureyri. Það er okkar von að Akureyringar taki vel á móti þeim tækifærum sem 3G þjónustan hefur í för með sér fyrir fólk í starfi og leik. Það var alltaf markmiðið að 3G netvæða Akureyri sem allra fyrst á eftir höfðuborgarsvæðinu og með opnuninni í dag höfum við náð því takmarki, fyrr en áætlað var," segir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans.

Viðskiptavinir sem vilja nýta sér 3G-þjónustu Símans geta nálgast nýtt SIM-kort í öllum verslunum fyrirtækisins á höfuðborgarsvæðinu. Farsíminn þarf að vera 3G- samhæfður, en upplýsingar um hvaða símtegundir ráða við 3G má m.a. finna á vef Símans, http://www.siminn.is/. Viðskiptavinir fá ný SIM-kort án endurgjalds og geta nýtt sér kosti 3G-kerfisins þegar kortið hefur verið sett í farsímann og sett hefur verið upp sérstakt forrit til að taka á móti sjónvarpsútsendingum. Síminn mun fyrst um sinn bjóða upp á útsendingar frá 8 íslenskum og erlendum sjónvarpsstöðvum í gegnum 3G og verður þjónustan gjaldfrjáls til 1. febrúar. Verðskrá fyrir aðra 3G-þjónustu Símans má finna á http://www.siminn.is/.

Nýjast