17. janúar, 2008 - 13:41
Fréttir
Skólahreysti 2008 hefst í Austurbergi í Breiðholti í Reykjavík í dag, fimmtudaginn 17. janúar. Þetta er í fjórða sinn sem
keppt er í Skólahreysti, en keppnin í ár er sú fjölmennasta og viðamesta til þessa. Rétt tæplega 500 keppendur, fulltrúar 120
grunnskóla alls staðar af landinu, mæta til leiks, en keppt verður á sjö stöðum áður en kemur að úrslitastundu. Úrslit fara fram
í Laugardalshöll fimmtudaginn 17. apríl. Fylgst verður með gangi mála í Skólahreysti 2008 í vikulegum þáttum á Skjá 1
og sýnt verður beint frá úrslitakeppninni í Laugardalshöll.
Fyrstu keppendurnir í ár eru gestaþátttakendurnir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, og Björn Ingi Hrafnsson, formaður
borgarráðs. Magnús Ólafsson, forstjóri Mjólkursamsölunnar, ræsir keppendur. Þegar Dagur og Björn Ingi hafa spreytt sig etja
fulltrúar 25 skóla af höfuðborgarsvæðinu kappi í fyrstu Skólahreystiskeppni ársins.