Opið bréf til skipulagsráðs, bæjarstjórnar og bæjarbúa

Líkan af fyrirhugðum byggingum við Tónatröð.
Líkan af fyrirhugðum byggingum við Tónatröð.

Við undirrituð, eigendur húsa við Spítalaveg og Tónatröð á Akureyri, mótmælum harðlega framkominni tillögu SS-Byggis að nýbyggingum ofan Tónatraðar. Það á jafnt við um byggingaráformin sjálf og það hvernig þau eru fram komin.

Tillaga þessi kastar út um gluggann gildandi deiliskipulagi (frá 2009). Það skipulag felur í sér uppbyggingu á svæðinu, uppbyggingu sem skal þó sveigja sig að því byggðamunstri sem fyrir er – sem tillagan nýja gerir ekki á nokkurn hátt.

Um er að ræða viðkvæmt og sögulega mikilvægt svæði í elsta hluta bæjarins, byggðamynd sem hefur haldið sínum megindráttum í yfir 100 ár – en myndi gjörbyltast ef tillagan yrði að veruleika.

Við undirbúning gildandi deiliskipulags var gerð ítarleg byggða-  og húsakönnun á svæðinu, og í henni má lesa: „Við skipulagningu framtíðarbyggðar er mikilvægt að leita leiða til að móta byggðina í heild með tilliti til svipmóts gömlu húsanna og með virðingu fyrir heildaryfirbragði landslagsins. Mótun nýrrar byggðar á þessu svæði þarf að taka mið af stærð gömlu húsanna, lögun þeirra, byggingarefni og legu í landslaginu.“

Mótmæli íbúanna gegn framkomnum byggingartillögum fela ekki í sér andstöðu við þéttingu byggðar á svæðinu. En nýja tillagan – um fimm 6-8 hæða blokkir – fer u.þ.b. eins fjarri ofannefndum viðmiðum og hægt er að komast.

Verktakinn á bak við nýju tillöguna segir í viðtali við Vikublaðið 11. mars:  „Skipulagsyfirvöld bentu SS-Byggi á að sækja um lóðirnar við Tónatröð undir fjölbýlishús...“ Ef þetta er rétt hafa skipulagsyfirvöld beinlínis beðið verktakann um að hundsa og kollvarpa gildandi deiliskipulagi.

Ef skipulagsyfirvöld vilja breyta deiliskipulaginu ber þeim að setja nýtt skipulag í ferli fyrst og ekki bjóða svæðið út til byggingar fyrr en nýtt deiliskipulag liggur fyrir, en hér er fylgt öfugri röð.

Auk þess að ganga þvert gegn áðurnefndu meginatriði að virða það byggðamunstur sem fyrir er gerir tillagan ráð fyrir að fjarlægð séu þarna tvö hús með merka sögu. Annað þeirra er aldursfriðað hús skv. lögum nr. 80/2012.

Það blasir við að núverandi umferðarmannvirki og innviðir á svæðinu eru mjög illa í stakk búin til að mæta því sem svo gríðarlegu byggingarmagni tilheyrir.

Það á ekki að þurfa að taka það fram að áður en Skipulagsráð Akureyrarkaupstaðar eða bæjarstjórn tekur afstöðu til svo róttækrar breytingar á skipulagi og ásýnd þessa elsta hluta bæjarins sem byggingartillagan felur í sér verði hún fyrst að setja hana í grenndarkynningu og  leita álits hjá Minjastofnun Íslands. 

Stefán Gunnar Stefánsson  Spítalavegi 1

Sindri Páll Stefánsson    Spítalavegi 1

 

Guðmundur Benediktsson  Spítalavegi 8

Lína Guðlaug Atladóttir  Spítalavegi 8

 

Ólafur Tr Kjartansson  Spítalavegi 9

Þorbjörg Ingvadóttir  Spítalavegi 9

 

Snorri Björnsson  Spítalavegi 13

Hildur Friðriksdóttir  Spítalavegi 13

 

Þórdís Katla Einarsdóttir  Spítalavegi 15

 

Þórarinn Hjartarson  Spítalavegi 17

Margrét Guðmundsdóttir  Spítalavegi 17

 

Helgi Friðjónsson  Spítalavegi 19

Hrafnhildur Gunnarsdóttir  Spítalavegi 19

 

Jóhanna Steinmarsdóttir  Spítalavegi 21

Jón Georg Aðalsteinsson  Spítalavegi 21

Hilma Sveinsdóttir Spítalavegi 21

 

Ómar Þórisson  Tónatröð 1

Kolbrún Sigurgeirsdóttir  Tónatröð 1

 

Sigurður Sveinn Ingólfsson  Tónatröð 5

Kristbjörg Ingólfsdóttir  Tónatröð 5

 


Nýjast