Lifandi og fjölbreytt samfélag í 15 ár

Aðalheiður Steingrímsdóttir er framkvæmdastjóri AkureyrarAkademíunnar.
Aðalheiður Steingrímsdóttir er framkvæmdastjóri AkureyrarAkademíunnar.

Það var á  fyrsta degi sumars 2006 sem hugsjónafólk á Akureyri kom saman til að setja á fót Félag sjálfstætt starfandi fræðimanna á Norðurlandi og átta árum síðar tók AkureyrarAkademían við starfseminni og nú á þessu ári er 15 ára afmæli fagnað.

Frá upphafi hefur markmiðið verið að starfrækja fræða- og menningarsetur á Akureyri til að bjóða háskólanemum og þeim sem fást við fræða- og ritstörf upp á aðstöðu til að vinna að hugðarefnum sínum og að styðja við rannsóknir og fræði með því að miðla þekkingu út í samfélagið og stuðla að umræðum.

Lengi vel var aðsetrið til húsa í gamla Húsmæðraskólanum á Akureyri og eftir það á öðrum stöðum en nú í verslunar- og þjónustumiðstöðunni, Sunnuhlíð 12. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur veitt mikilvægan stuðning við starfsemina samkvæmt verkefnasamningi og Háskólinn á Akureyri og Akureyrarbær með útvegun húsnæðis. Fyrir þennan stuðning er þakkað.

Þegar litið er yfir farinn veg er ljóst að starf að áðurnefndum markmiðum hefur skilað góðum árangri og átt þátt í að styrkja búsetu og samfélag hér fyrir norðan.

Á liðnum 15 árum hafa tæplega 100 einstaklingar haft samastað til sköpunar innan veggja AkAk sem tekur til tæplega 50 greina eða fræðasviða. Flestir hafa verið í námi við innlenda og erlenda háskóla og í hinum hlutanum er fjölbreyttur hópur sjálfstætt starfandi fræði- og listamanna sem og frumkvöðla. Starfsemi AkAk hefur gefið háskólanemum og þeim sem vinna að fræði- og ritstörfum hér í bæ og víðar tækifæri til menntunar og sköpunar og hluti einstaklinganna hefur ákveðið að flytja til Akureyrar og tekið störfin sín með sér. Innan veggja AkAk hafa þeir stundað kennslu við erlenda og innlenda háskóla og tekið þátt í innlendu og erlendu rannsóknastarfi á fjölbreyttum fagsviðum. AkAk er mikilvægur hluti þeirra innviða sem eru og þurfa að vera fyrir hendi hér á svæðinu til að nýta sem best tækifæri sem felast í störfum óháð staðsetningu með það fyrir augum að gera Norðurland að eftirsóknarverðum valkosti til búsetu, háskólanáms og fræða- og ritstarfa.

Á vettvangi AkAk varð til þverfaglegt samfélag einstaklinga með fjölbreyttan bakgrunn sem hefur skapað frjótt samtal og umhverfi og átt þátt í að auðga mannlíf og menningarstarf hér á svæðinu. Á liðnum árum hefur AkAk staðið fyrir ríflega 150 viðburðum þar sem lögð hefur verið áhersla á að tengja saman ólíka hópa og að virkja almenning til þátttöku. Fjölbreytt viðburðahald hefur þjónað öllum aldurshópum í bænum og sérstök áhersla verið lögð á að sinna vel eldri borgurum með samstarfi við öldrunarheimilin um fyrirlestra fyrir íbúana sem hafa að jafnaði verið opnir almenningi. Auk þessa hefur AkAk lengi átt farsælt samstarf við Háskólann á Akureyri og ReykjavíkurAkademíuna og fyrr á þessu ári hófu AkAk og Akureyrarbær samstarf um að bjóða einstaklingum upp á endurgjaldslausa aðstöðu til að vinna að þróun nýsköpunar- og frumkvöðlaverkefna. Einnig hafa fjölmargar opinberar stofnanir, félög og fyrirtæki unnið með AkAk að fræðslu- og menningarmálum á liðnum árum eða lagt þeim lið.

AkureyrarAkademían þakkar fyrrum og núverandi félögum sínum og samstarfsaðilum fyrir gjöfula   samvinnu á liðnum árum. Á þessum tímamótum er horft með bjartsýni til næstu 15 ára.

Aðalheiður Steingrímsdóttir er framkvæmdastjóri AkureyrarAkademíunnar.


Nýjast