07. júní, 2008 - 20:55
Fréttir
Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri á Akureyri segir að alla tíð hafi það verið sameiginlegur skilningur, bæði
ríkis og bæjar að framlag ríkisins vegna byggingar menningarhúss í bænum yrði verðbætt, en í þeim hópi var m.a.
ríkisendurskoðandi.
Oddur Helgi Halldórsson bæjarfulltrúi L-lista í bæjarstjórn Akureyrar gagnrýndi í grein í Vikudegi í liðinni viku hvernig
staðið var að samningi milli ríkis og bæjar um byggingu hússins, að samningurinn hefði ekki verið vísitölutryggður og að hlutur
bæjarins væri mikill. "Þetta mál var mikið rætt á sínum tíma og í tengslum við undirritun samningsins við
ríkið. Við fórum m.a. fram á að fá framlag ríkisins greitt í einu lagi og ávaxta það, þar sem framkvæmdum var
frestað um nokkra mánuði," segir Sigrún Björk. Hún segir að viðræður standi nú yfir við ríkið um að framlag
þess verði verðbætt, "og ég á von á að niðurstaða liggi fyrir mjög fljótlega og að sú niðurstaði verði í
þá veru að framlag ríkisins verði verðbætt."
Bæjarstjóri segir menningarsamning milli Akureyrarbæjar og ríkisins í gildi fram til ársloka 2009. Hann felur í sér stuðning við
stofnanir eins og Leikfélag Akureyrar, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Listasafnið á Akureyri. "Þessa dagana er verið að
undirbúa ákvörðun að rekstrarformi Hofs og mögulega aðkomu ríksins að því verkefni. Þar hefur verið horft til þess
fordæmis sem TRH verkefnið í Reykjavík er og hversu stór þátttaka ríkisins er þar," segir Sigrún Björk.
Hún bendir jafnframt á að eins sé verið að fara yfir málin í viðræðum milli menntamálaráðuneytisins og
Akureyrarbæjar. "Það er ljóst að við sitjum ekki við sama borð í þessum málum og Reykvíkingar og það getum við ekki
sætt okkur við," segir hún.