Úttekt: Aðsókn á söfn í Norðurþingi

Steypireyðargrindin hefur laðað margan ferðamanninn að Hvalasafninu í sumar. Mynd: JS
Steypireyðargrindin hefur laðað margan ferðamanninn að Hvalasafninu í sumar. Mynd: JS

Húsavík hefur síðustu ár komið sér á kortið sem viðkomustaður erlendra ferðamanna. Það er engum blöðum um það að fletta að líklega skiptir mestu í þessu samhengi gríðarlegur vöxtur í hvalaskoðun á Skjálfanda en fjögur fyrirtæki bjóða upp á siglingar um flóann.

En það er líka talsvert af söfnum á svæðinu. Dagskráin.is tók púlsinn á nokkrum þeirra og kannaði aðsókn það sem af er sumri.

Hvalasafnið á Húsavík

Gestum fjölgar milli ára í Hvalasafninu á Húsavík. Í júlí síðastliðnum heimsóttu 11.524 gestir safnið. Erlendir gestir eru í miklum meirihluta og koma flestir frá Þýskalandi, Frakklandi og Bandaríkjunum. Á síðasta ári heimsóttu safnið á sama tímabili 8.364 gestir, það er því talsverð aukning á milli ára, eflaust á þar einhvern þátt  nýjasta stórstjarna safnsins, steypireyðarbeinagrindin – en sýning á henni hófst nú í sumar. „Tímabilið er líka alltaf að teygjast hjá okkur, við erum að sjá aukningu í maí og sömuleiðis september,“ segir Halldór Jón Gíslason verkefnastjóri Hvalasafnsins í samtali við dagskrána.is.

„Safnið var stofnað árið 1997. Meginmarkmið þess er að miðla fræðslu og upplýsingum um hvali og búsvæði þeirra. Með fræðslu og þekkingaröflun um hvali og lífríki þeirra eykur Hvalasafnið á fræðslugildi hvalaskoðunarferða sem farnar eru frá Húsavík og víðar,“ segir á heimasíðu safnsins.

Könnunarsögusafnið

Könnunarsögusafnið

Könnunarsögusafnið á Húsavík (The Exploration Museum) er tileinkað þeim könnuðum sem eiga tengingar við Þingeyjarsýslur. Fyrstan ber að nefna Garðar og Náttfara sem höfðu vetursetu á Húsavík um miðja 9. öld. Þá er sögu fyrstu tunglfaranna einnig gerð ítarleg skil en þeir æfðu sig í Þingeyjarsýslum 1965 fyrir tunglferð sína 1969.

“Svona í fljótu bragði get ég sagt þér að það er aukning á milli ára, enda vissi ég að það yrði – við erum búin að fá betri kynningu og svona,“ sagði Örlygur Hnefill Örlygsson framkvæmdastjóri safnsins þegar dagskráin.is spurðist fyrir um aðsóknina í sumar. „Mín tilfinning er sú að það sé tvöföldun á milli ára. Fyrsta sumarið var aðsókn nánast engin, í fyrra var hún skárri og svo má segja að þetta sé búið að tvöfaldast núna í ár, ég hugsa að með einni tvöföldun í viðbót þá er safnið komið á þann stað sem maður vill sjá það á,“ segir Örlygur Hnefill.

 Íslendingar eru ekki að skila sér vel á Könnunarsögusafnið frekar en á mörg önnur söfn. „Það kemur samt svona einn og einn – ætli Íslendingar séu ekki svona 2% af heildar gestafjöldanum ef ég á að skjóta á einhverja tölu,“ segir Örlygur Hnefill.

Örlygur Hnefill Örlygsson er einnig hótelstjóri Húsavík Cape hotel og hann segir að auknig sé töluverð þar á milli ára. Hann tekur líka undir með öðrum ferðþjónustuaðilum að ferðamannatímabilið sé sífellt að lengjast. „Reyndar var nýliðinn vetur sá fyrsti síðan við hófum rekstur árið 2010 sem það er góður gangur á þessu, við höfum alltaf verið með heilsársopnun og veturnir hafa verið í tapi þar til nú,“ segir hann og bætir við. „Það er nú þannig að ef maður ætlar að vera með heilsársopnun þá tekur tíma að byggja hana upp.“

Hann viðurkennir þó að undir eðlilegum kringumstæðum hefði þessi uppbygging tekið 2-3 ár í viðbót, „Við fengum innspýtingu vegna framkvæmda hér í bænum, það hefur líklega flýtt því að við höfum komist á þann stað sem við erum á í dag,“ segir hann og vísar þarna til framkvæmda vegna uppbyggingu á kísilmálmverksmiðju PCC á Bakka.

Menningarmiðstöð Þingeyinga

Mannlíf og náttúra í Þingeyjarsýslum – 100 ár í Þingeyjarsýslum

Menningarmiðstöð Þingeyinga hefur fjölmargar sýningar á sínum snærum vítt og breitt um Þingeyjarsýslur. Á Húsavík rekur stofnunin Safnahúsið á Húsavík þar sem eru tvær fastasýningar; Mannlíf og náttúra í Þingeyjarsýslum – 100 ár í Þingeyjarsýslum en inni í þeirri sýningu er reyndar þriðja fastasýning safnsins en hún heitir Saga Samvinnuhreyfingarinnar og er nokkurs konar sýning í sýningunni og byggir að mestu leyti á margmiðlunarefni. Þá er safnið með glæsilega sjóminjasýningu sem hlaut íslensku safnaverðlaunin sumarið 2012. 

Menningarmiðstöðin rekur einnig byggðasafn að Snartastöðum rétt utan Kópaskers og Sauðaneshús á Langanesi og í Aðaldal er hið glæsilega byggðarsafn Grenjaðarstaður.

„Það er frekar rólegt, en það er alveg hægt að segja að aðsókn sé eins og í hefðbundnu ári. Það er þó hæg fjölgun á Grenjaðarstað,“ sagði Sif Jóhannesdóttir forstöðumaður Menningarmiðstöðvar Þingeyinga um aðsóknina á söfnin. Hún segir jafnframt að fátt fólk hafi verið á Sauðastöðum og Snarpastöðum. Aðsókn á Safnahúsið á Húsavík sé í meðallagi. „hingað koma yfirhöfuð ekki margir, bæði af því að fólk finnur okkur ekki – við þurfum að merkja okkur betur, svo fara allir í hvalasiglingu og hvalasafn, það er eðlileg blanda og taka svo byggðasafn annarsstaðar,“ segir hún.

Sif segir einnig að hlutfall íslenskra og erlendra gesta sé nokkuð jafnt. „Ég er ekki með prósentutölur en mér sýnist þetta vera nokkuð jafnt hlutfall,“ hún segir það þó ekki alveg að marka þar sem stór hluti safngesta komi á sérsýningarnar, málverkasýningar og annað slíkt og þar séu Íslendingar í meirihluta. „Á Húsavík tel ég að skiptingin sé jöfn en það eru fleiri erlendir gestir á Grenjaðarstað en Íslendingar eru aftur á móti í meirihluta fyrir austan,“ segir hún.

-epe

Nýjast