Nýliðin helgi gekk vel að flestu leiti í umdæmi lögreglunnar á Akureyri þó svo afskipti hefði þurft að hafa af allnokkrum ökumönnum vegna hegðan þeirra í umferðinni. Alls voru18 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur, þar af 4 innanbæjar á Akureyri. Þrátt fyrir að sektir hafi hækkað til mikilla muna á sl. ári og barlómur sé um slæmt efnahagsástand í þjóðfélaginu þá virðist sem að illa gangi að ná ökuhraðanum í þá stöðu sem ásættanlegt er. Þó nokkur fjöldi þeirra ökumanna sem afskipti voru höfð af þurfa að reiða fram 50.000-70.000 krónur í sektir vegna sinna mála.
Þá hafði lögreglan afskipti af ökumanni á föstudagskvöldið sem hafði verið sviptur ökuréttindum vegna ölvunaraksturs og kom þá í ljós að hann var einnig ölvaður undir stýri nú.
Þá segir á vef lögreglunnar að vert sé minna ökumenn á að við Drottningarbrautina eru nú gæsir með unga sína í stórum hópum sem rölta reglulega yfir götuna. Illa fór fyrir slíkum hópi aðfaranótt sunnudags en þá var ekið yfir sjö unga er voru á leið yfir götuna.