Ungt fólk og Norðurþing

Halldór Jón Gíslason
Halldór Jón Gíslason

Halldór Jón Gíslason skrifar

Mig langar að skrifa nokkur orð um málefni sem er mér mjög hugleikið, ekki einungis vegna starfa minna sem aðstoðarskólameistari í Framhaldsskólanum á Húsavík, heldur vegna þess að mér er annt um framtíð samfélagsins í Norðurþingi og þar er unga fólkið okkar lykillinn. Við þurfum að hlúa að ungmennum.

Ungt fólk hefur sterka rödd, réttlætiskennd og gegnir mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Þau skipa stórann sess í menningar- og íþróttastarfi auk þess að vera þátttakendur á vinnumarkaðinum hérna. V-listinn vill efla rödd þessa einstaklinga og þátttöku þeirra í stjórnsýslunni og ákvarðanatöku sem þar fer fram, til dæmis um málefni sem varða þau sjálf. Til þess þarf að efla samfélagsvitund ungs fólks og ungmennaráð gegnir þar stóru hlutverki. Við viljum efla ungmennaráð, sækja í erlenda sjóði og styrkja ungt fólk í alþjóðlegu samhengi. Vinna með ungu fólki að verkefnum sem hlúa að inngildingu íbúa af erlendum uppruna í samstarfi með aðkomu fjölmenningarfulltrúa sveitarfélagsins sem hefur unnið gríðarlega mikilvægt starf á síðustu árum. Fá hugmyndir þeirra að eflingu samfélagsins, því ég veit af eigin raun að unga fólkið okkar er alltaf að rannsaka og grann skoða samfélagið sitt og hefur oft ferska sýn sem við hin eldri getum tekið mark á.

Við á V-listanum viljum einnig leggja sérstaka áherslu á að gera sveitafélagið okkar hinseginvænt. Sú vinna byrjar í skólastofunni. Okkur þykir ljóst að aðstöðumunur hinsegin barna, ungmenna og fjölskyldna er töluverður eftir búsetu. Þarna þurfum við að huga að fræðslu og stuðningi. Með auknu samstarfi við önnur sveitafélög er hægt að byggja upp nauðsynlega þjónustu við hinseginfólk í landshlutanum. Þetta væri hægt að gera í góðu samráði við Samtökin 78.

Á V-lista er mikið af ungu fólki sem vill efla samfélagið og gera því gott og með aðstoð enn yngra fólks, getum við gert samfélagið okkar fjölskylduvænna og meira aðlaðandi fyrir ungmenni til frambúðar.

Halldór Jón Gíslason

Undirritaður er aðstoðarskólameistari Framhaldsskólans á Húsavík og skipar 4. sæti á V-lista í Norðurþingi.


Nýjast